Konan, sem björgunarsveitir hafa leitað að við Mýrdalsjökul frá því fyrir miðnætti, er ófundin samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Skilyrði til leitar voru erfið í nótt að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Björgunarsveitir fóru í skála á svæðinu og notuðu vélsleða og snjóbíl við leitina. Um klukkan sex var ákveðið að gera hlé á leitinni vegna veðurs. Staðan verður endurmetin klukkan 11 að sögn Ólafar.
Ekkert hefur spurst til konunnar frá því í hádeginu á föstudaginn þegar skilaboð bárust frá henni í gegnum svokallað SPOT-tæki, en hún hafði samið við vinkonu sína um að senda henni skilaboð með þeim hætti á 12 tíma fresti. Tók konan fram að bærust ekki boð i þrjú skipti væri það merki um að hún þyrfti aðstoð.
Konan lagði af stað á þriðjudag og hugðist fara á gönguskíðum í kringum Mýrdalsjökul, það upp austan við hann, fyrir hann norðanmegin og niður vestanmegin og ganga þar Mælifellssand og Emstrur. Konan er á fertugsaldri, erlend en búsett hér á landi, og mjög vön ferðalögum við erfiðar aðstæður.
Frétt mbl.is: Leitað að konu við Mýrdalsjökul
Frétt mbl.is: Búist við stormi og ofsaveðri
Frétt mbl.is: Ofsaveður? Hvað er nú það?