Skrifað var undir samkomulag á milli Reykjavíkurborgar og Ríkisútvarpsins um að efna til hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á 59.000 fermetra svæði til hliðar við útvarpshúsið. Gert er ráð fyrir blöndu af séreignar og leiguíbúðum ásamt verslun og þjónustu á svæðinu.
Þeir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, skrifuðu undir samkomulagið á sama tíma og undirritað var samkomulag um leigu borgarinnar á fjórðu og fimmtu hæð útvarpsshússins auk aðstöðu á annarri hæð þar sem móttaka er staðsett, alls 2.600 fermetra. Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða mun flytja í húsið í maí sem nú er staðsett í Síðumúla. Ríkisútvarpið mun hafa um 60 milljónir króna í leigutekjur af samkomulaginu á ári en samningurinn er til 15 ára.
Dagur segir mikilvægt að uppbyggingin verði í samræmi við aðrar byggingar á svæðinu en í tilkynningu vegna samningsins kemur fram að:
Skipulagssamkeppnin nær til 59.000 fermetra svæðis sem afmarkast af Listabraut í norðri, Háaleitisbraut í austri, Bústaðavegi í suðri og Efstaleiti í vestri. Samkeppnin er haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og á næstu dögum verður auglýst eftir þátttakendum.
Vonast er til að skipulagssamkeppnin skili framsæknum hugmyndum um nýja blandaða byggð, spennandi almenningsrými og fjölbreytta vistvæna samgöngumáta. Áhersla er lögð á að yfirbragð góðrar byggingarlistar einkenni svæðið og að það státi af heildstæðum götumyndum.
Auk almennra séreignaríbúða og möguleika á uppbyggingu verslunar og þjónustu er tryggt að einnig verði leiguíbúðir á reitnum. Gert er ráð fyrir blönduðu búsetuform, en það eru séreignaríbúðir, leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, félagslegar íbúðir og/eða nýtt búsetuform Reykjavíkurborgar sem nefnt er „Reykjavíkurhús“. Reykjavíkurborg mun ráðstafa 20% af samþykktum íbúðum til uppbyggingar leigumarkaðar en þó aldrei fleiri en 40 íbúðir. Félagsbústaðir hf. munu hafa kauprétt á markaðsverði, fyrir allt að 5% af íbúðum á lóðinni fyrir félagslegt leiguhúsnæði.