Konan fannst heil á húfi

Flugbjörgunarsveitin Hellu

Konan sem leitað hefur verið að síðan á laugardag fannst nú á sjötta tímanum heil á húfi í skálanum í Hvanngili. Ekkert amaði að konunni en hún hafði komist í skála áður en óveðrið skall á, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli en mbl.is náði í hann í stjórnstöð björgunarsveita.

Að sögn Sveins voru það björgunarsveitarmenn á snjóbílum sem komust í Hvanngil um 5:40 í morgun en gjörsamlega ófært er fyrir önnur björgunartæki á þessum slóðum. 

Konan, sem hefur verið búsett hér á landi og talar mjög góða íslensku, er mjög kunnug staðháttum og mjög  vel búin. Hins vegar var það eitthvað sem ekki virkaði sem skyldi í fjarskiptatækjum hennar sem olli því að hún varð sambandslaus við umheiminn. Síðast hafði heyrst frá henni síðdegis á föstudag og hófst formleg leit á laugardagskvöldið.

Afar erfiðar aðstæður voru til leitar enda snarvitlaust veður á þessum slóðum frá því aðfararnótt sunnudags. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert