Vissi ekki að leitað var að henni

Kerstin Langenberger er komin til höfuðborgarsvæðisins.
Kerstin Langenberger er komin til höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Kerstin Langenberger, þýsk kona á fertugsaldri sem lagði upp í ferð í kringum Mýrdalsjökul síðastliðinn þriðjudag, hafði ekki hugmynd um að fjöldi björgunarmanna hefði leitað að henni frá því á laugardagskvöld. Hún var sofandi þegar sex björgunarmenn komu í skálann í Hvanngili rétt fyrir klukkan sex í morgun.

„Ég var sofandi og allt í einu voru sex björgunarmenn þarna, brosandi og mjög skemmtilegir, þá var ég svolítið hissa,“ segir Kerstin í samtali við mbl.is. Björgunarleiðangurinn kom á Hellu um klukkan tíu í morgun.

Ætlaði að ganga í hátt í tólf daga

Ferðin átti að standa yfir í níu til tólf daga. Kerstin segist hafa valið leiðina þar sem á henni eru skálar á 15 til 20 kílómetra fresti. Hún hafði tjald meðferðis og gerði ráð fyrir að tjalda þegar veður leyfði. „Ég vissi að það ætti að vera mjög slæmt veður um helgina og hafði neyðartæki með mér,“ segir Kerstin.

Með í för var svokallað SPOT-tæki sem hún ætlaði að nota til að senda skilaboð á tólf klukkustunda fresti. Kerstin samdi við vinkonu sína um að taka á móti tölvupósti frá tækinu og var tekið fram að ef ekki bærust boð í þrjú skipti væri það merki um að hún þyrfti aðstoð og ætti hún því að hafa samband við lögreglu. Kerstin segist hafa ýtt á takka á tækinu þrisvar á dag og því sé ljóst að tækið hafi bilað. Ætlar hún að láta lögreglu hafa tækið.

Brá þegar mennirnir komu inn í skálann

Þegar veðrið fór versnandi um helgina ákvað Kerstin að bíða það af sér í Hvanngili. Hún segir að brjálað veður hafi verið úti en hún hafi haft það notalegt í skálanum. Henni brá aftur á móti töluvert þegar björgunarmennirnir birtust í skálanum í eldsnemma í morgun. „Ég var sofandi og allt í einu voru sex björgunarmenn þarna, brosandi og mjög skemmtilegir, þá var ég svolítið hissa,“ segir Kerstin.

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem Kerstin leggur í ferð af þessu tagi en hún er mjög vön ferðalögum við erfiðar aðstæður. Þá bjó hún hér á landi í sex ár, þekkir svæðið þar sem hún gekk síðustu daga mjög vel og starfaði um tíma sem skálavörður

Vildi ljúka leiðangrinum

„Ég hef farið í svona ferðir á Íslandi og á Svalbarða en tækið hefur aldrei bilað,“ segir hún og bætir við að hún þurfi líklega einnig að taka með sér gervihnattasíma næst þegar hún leggur í ferðalag af þessu tagi. „Mér finnst mjög leiðinlegt að hundrað manns voru að leita að mér í þessu veðri. Þetta var brjálað veður,“ segir Kerstin.

Göngugarpurinn var þó ekki á því að ljúka ferðinni fyrr en ætlað var. „Ég ætlaði að ljúka ferðinni en stjórnstöðin vildi að ég kæmi með þeim í bæinn,“ segir Kerstin. Hún segist vissulega skammast sín dálítið fyrir að leitað hafi verið að henni þegar hún var ekki í vanda. „Ég er mjög þakklát fyrir hjálpina og biðst afsökunar á þessu.“

Björgunarsveitarmenn með Kerstin Langenberger í dag.
Björgunarsveitarmenn með Kerstin Langenberger í dag. mbl.is/Árni Sæberg
Konan kom með snjóbíl til byggða.
Konan kom með snjóbíl til byggða. Af vef Landsbjargar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert