Íbúar í Eyjarhólum í Mýrdal komu fimm brasilískum ferðamönnum til bjargar aðfararnótt sunnudags en þeir höfðust við í bifreið sinni í aftakaveðri skammt frá bænum. Rafmagn fór af í Mýrdalnum í gærmorgun og komst ekki á fyrr en í nótt. Því var bæði síma- og rafmagnslaust á þessum slóðum og Hringvegurinn lokaður vegna veðurofsans.
Tveir ferðamannanna áttu pantað flug með Wow air til Kaupmannahafnar snemma í morgun en þar sem þeir sátu fastir í Eyjarhólum vegna ófærðar reyndi hópurinn að hringja til flugfélagsins Wow án árangurs í alla nótt en ekki var svarað í síma hjá Wow fyrr en klukkan átta í morgun. Fólkið fékk þá þær upplýsingar að þau hefðu átt að hafa samband í gegnum netið en eðli málsins samkvæmt var það ekki hægt þegar allt er rafmagns- og símasambandslaust.
Ekkert netsamband í rafmagns- og símasambandsleysi
Þar sem flugvél Wow er fullbókuð til Kaupmannahafnar á morgun þá þurfa þau að fljúga út á fimmtudag og þurfa að kaupa miðana á fullu verði enda fengust þau svör að Wow bæri ekki ábyrgð á veðrinu.
Að sögn Sindra Björnssonar, íbúa í Eyjarhólum, var farsímasamband í Mýrdalnum mjög lélegt áður fyrr en eftir að settir voru upp gsm-sendar fyrir nokkru batnaði það mjög. En þegar rafmagnið fór í gærmorgun þá duttu sendarnir út og allt símasamband sem og netsamband. Þó svo að rafmagnið hafi komið á í nótt þá var sambandið afar stopult og einungis eitt strik á gsm-símum sem nægir ekki til þess að fara inn á netið.
„Það var loksins klukkan átta sem þau náðu sambandi og þeim tjáð að ekkert væri hægt að gera,“ segir Sindri. Hann var ekki sáttur við þau svör sem ferðafólkið fékk og ákvað að hringja sjálfur og fékk þær upplýsingar að flugfélagið tæki ekki ábyrgð á veðri. Hann segir þetta mjög bagalegt fyrir fólkið sem þarf að komast áfram leiðar sinnar eftir að það er komið til Kaupmannahafnar þar sem ekkert þeirra er búsett þar.
Þrír þeirra eiga hins vegar pantað flug með Icelandair á morgun og því engin vankvæði tengd þeirra ferðalagi. Sindri segist afar ósáttur við þessa afgreiðslu Wow þar sem fólkið hafi gert það eina rétta í stöðunni aðfararnótt sunnudags, að stöðva bílinn og bíða þar átekta enda veðrið glórulaust og beinlínis lífshættulegt að vera á ferðinni.
Ferðamennirnir höfðu verið í Skaftafelli og við Jökulsárlón fyrr um daginn í fínu veðri. Þau ákváðu þegar leið á daginn að fara aftur til Reykjavíkur í stað þess að bíða eftir norðurljósunum líkt og þau höfðu velt fyrir sér en veðrið fór smám saman versnandi eftir því sem sunnar dró. Þegar þau voru komin í gegnum Vík í Mýrdal var orðið mjög erfitt að keyra og ákváðu þau að halda kyrru fyrir í bílnum þar sem ekkert skyggni var. Sindri og kona hans, Halldóra J. Gylfadóttir, sáu ljósin á bíl þeirra og komu þeim til aðstoðar og buðu þeim gistingu í Eyjarhólum um nóttina.
Að sögn Sindra var ekki hundi út sigandi í allan gærdag og fóru rúður úr tveimur bílum, þar á meðal bílaleigubíl ferðamannanna auk þess sem rúður fóru úr nokkrum bílum í Vík í Mýrdal.
Líkt og fram kom á mbl.is í gær stóðu björgunarsveitir á Suðurlandi í ströngu síðdegis í gær. Verst var ástandið undir Eyjafjöllum þar sem rúður brotnuðu í bílum og bílar fuku á hliðina á svæðinu frá Pétursey að Skógum.
„Í fyrstu var reynt að senda traktor frá Sólheimahjáleigu á staðinn en hann varð frá að hverfa vegna veðurofsans. Hið sama á við um bíla sem sendir voru frá Vík, m.a. brotnuðu rúður í björgunarsveitabíl Víkverja. Svo mikill var vindurinn að vörubílar, sem voru að flytja snjóbíla á pallinum, köstuðust til,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Landsbjörg í gær.
Lokað var fyrir alla umferð undir Eyjafjöllum að Vík og frá Skaftafelli að Kvískerjum gær og þangað til í morgun og því ekki mögulegt fyrir brasilísku ferðamennina að komast í flugið frá Keflavíkurflugvelli í morgun.