Miklar líkur eru á því að gos verði undir jökli og í kjölfarið megi vænta öskufalls og flóða, að sögn Kristínar Jónsdóttur, fagstjóra jarðvár á Veðurstofu Íslands. Bendir hún á að lega eldstöðvarinnar og saga gosstöðvarinnar gefi þetta til kynna.
„Það er alveg ljóst að Bárðarbunga er farin af stað. Þetta er hrinukennd virkni og það er hafið tímabil aukinnar virkni í Bárðarbungu. Mestar líkur eru því á að það verði fleiri gos þarna í kjölfarið,“ sagði Kristín í samtali við Ríkisútvarpið. Á þessari stundu sé hins vegar erfitt að meta hvar eða hvenær næsta gos kynni að verða.
Sjá yfirlit mbl.is um gang eldgossins í Holuhrauni: Staðreyndir um eldgosið