Ættu að ráðfæra sig við lækna

Júlíus Júlíusson reyndi að selja óhefðbundna meðferð sem kostar í …
Júlíus Júlíusson reyndi að selja óhefðbundna meðferð sem kostar í grunninn um 600 þúsund krónur. Skjáskot úr Kastljósi

Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti læknadeildar HÍ, segir fræðasamfélagið of sjaldan gera athugasemdir við hinar ýmsu tegundir óhefðbundinna lækninga. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í gær fjallaði Kastljós um sölumennsku til dauðvona sjúklinga og var umfjölluninni haldið áfram í kvöld.

Frétt mbl.is: Selja dauðvona sjúklingum von 

Magnús segir „geysilega mikið af fólki“ bjóða sjúklingum hin ýmsu efni sem séu auglýst undir þeim formerkjum að vinna á ýmsum sjúkdómum. Því þurfi sjúklingar að spyrja hvort búið sé að sýna fram á árangur viðkomandi efna. Þá talaði hann um að slíkar meðferðir geti verið skaðlegar, sérstaklega ef óhefðbundnar meðferðir komi í stað meðferða sem hafa sýnt fram á bata.

Meðferðir utanlands kosta milljónir króna

Svanur Sigurbjörnsson, lyflæknir, var viðmælandi Þóru Arnórsdóttur í Kastljósi kvöldsins. Sagðist hann þar hafa heyrt af mörgum dæmum þess að reynt sé að selja sjúklingum ýmsar meðferðir eða vörur með óhefðbundinn lækningamátt.

Hann tekur sem dæmi utanlandsferðir í slíkar meðferðir sem kosti milljónir króna. Í umfjöllun Kastljóss í gær töluðu sjúklingar og aðstandendur sjúklinga um það hversu auðvelt sé að láta glepjast af slíkum gylliboðum, þar sem allt er reynt til að lifa sem lengst.

Í Kastljósi var m.a. rætt um samantekt Svans, hjálækningar, kukl og heilsusvindl, en þar gerir Svanur ýmsum óhefðbundnum meðferðum skil og flokkar eftir hvort þær geri ógagn, séu óstuddar, óljósar eða gagnlegar. Af þeim tugum óhefðbundinna lækninga sem Svanur telur til á yfirlitsmynd um óhefðbundnar lækningar voru einungis 11 þeirra í flokknum „gagnlegar“. Það er þolþjálfun, styrktarþjálfun, teygjur, hugræn atferlismeðferð, D-vítamín, kalk, gagnreynd lyf, gingko, Jóhannesarjurt, þistilhjörtusafi og hestakastaníuhneta.

Flestar tegundir óhefðbundinna meðferða enda í flokknum „óstutt“ en einhverjar í „óljóst“ og „ógagn“. Hann segir sjúklinga eiga að ráðfæra sig við lækni áður en farið er í meðferð sem ekki hafur verið sýnt fram á að geri gagn.

Stakur vitnisburður lélegasta form vitnisburðar um gagnsemi

Hann segir það geta hljómað sannfærandi fyrir leikmann að heyra ýmsar sögur af bata en segir slíkar sögur lélegasta form vitnisburðar um gagnsemi, flest veiti sjúklingum betri líðan um ákveðinn tíma og því sé ekki hægt að taka staka vitnisburði sem einhverja sönnun þess að tegundir óhefðbundinna meðferða virki.

Svanur tók sem dæmi batasögu sem Ólaf­ur Ein­ars­son, annar sölumannanna sem fjallað var um í Kastljósi í gær, sagði við sjúkling um mann sem læknaðist af lifrabólgu C vegna meðferðarinnar. Hann segir lifrabólgu C oft læknast án meðferðar og sé það líklegast að líkaminn hafi einfaldlega losað sig við veiruna í því tilfelli.

Hann segir þá hluti sem falli undir flokkinn „óljóst“ hafa frekar þrönga meðferðarglugga og því geti þeir virkað á ákveðna hluti. „Þarna þarf að beita dómgreindinni,“ segir Svanur og tók það jafnframt fram að vísindasamfélagið væri á þeirri skoðun að hætta ekki leitinni. Að það væri opinn hugur fyrir því að skoða allt sem stenst fyrstu skoðun.

Markaðurinn í kring um óhefðbundnar meðferðir er sem betur fer ekki stór, að sögn Svans, en þó mjög alvarlegur. Á hann þar m.a. við sölu varnings í búðum, græðara og hreinar blekkingar.

„Slegið upp í gríni líka“

Í kvöldfréttum RÚV var rætt við Júlíus Júlíusson, sölumann sem vildi selja Guðjóni Sigurðssyni, sem greindist með MND-sjúkdóminn fyrir 11 árum, óhefðbundna meðferð sem kostar um 600 þúsund krónur í grunninn. Guðjón tók upp samskipti þeirra tveggja með falinni myndavél og voru upptökurnar birtar í þætti Kastljóss í gær. Þar sagði Júlíus m.a.  að Guðjón yrði farinn að hlaupa áður en hann vissi af.

Þegar RÚV spurði Júlíus út í ummæli hans sagðist hann hafa slegið þeim upp í gríni líka en auðvitað vonaðist hann að það myndi gerast.

Þá var hann spurður út í jónaða vatnið sem hann bauð Guðjóni til kaupa. Kastljós lét Matís framkvæma samanburðarrannsókn á vatni Júlíusar og venjulegu kranavatni. Rannsóknin leiddi í ljós að vatn Júlíusar innihélt nánast sömu gildi og venjulegt kranavatn.

Hann sagðist ekki vera búinn að missa trú á vatninu þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarinnar. „Þó að einhver segi að þetta sé alveg eins og kranavatn. Það segir mér ekki að það sé kranavatn. Ég veit betur,“ sagði Júlíus.

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðstjóri hjá Neytendastofu, sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að málið, auk annarra, verði tekið fyrir hjá Neytendastofu á næstunni.

Hún segist telja ástæðu til að rannsaka ýmsar fullyrðingar um lækningamátt þeirra efna og tóla sem sjúklingum er boðið til kaupa. Sagði hún bannað að blekkja neytendur og eins sé bannað að veita villandi upplýsingar um lækningamátt tækja. 

Magnús Karl Magnússon, deildarforseti læknadeildar.
Magnús Karl Magnússon, deildarforseti læknadeildar.
Svanur Sigurbjörnsson, lyflæknir.
Svanur Sigurbjörnsson, lyflæknir.
Júlíus Júlíusson.
Júlíus Júlíusson. Skjáskot úr kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert