Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út nú síðdegis þegar beiðni barst um aðstoð frá tveimur erlendum ferðalöngum er staddir voru á Fimmvörðuhálsi. Höfðu þeir ætlað sér að ganga frá Skógum í Þórsmörk en eftir um þriggja tíma göngu reyndust aðstæður þeim ofviða.
Mjög hvasst var á Fimmvörðuhálsi í dag en send voru svokölluð Rescue Me-skilaboð í síma þeirra. Virka þau þannig að svari viðkomandi boðunum kemur nákvæm staðsetning hans með svarinu.
Björgunarsveitir fundu svo mennina á þeim stað er boðin gáfu til kynna, eða í um 500 m hæð. Voru þeir heilir á húfi en farnir að kólna, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.