Aðstoðaði hundruð ferðalanga

Gísli Jónsson strætóbílstjóri var sannkallaður bjargvættur á sunnudaginn þegar hann kom hundruð ferðalanga, sem voru veðurtepptir í Staðarskála vegna ófærðar á Holtavörðuheiði, til aðstoðar.

Á sunnudagskvöld sýndi hann og sannaði að strætó á landsbyggðinni er annað og meira en venjulegur strætisvagn. Staðarskáli var troðfullur af fólki á suðurleið sem taldi sig veðurteppt því Holtavörðuheiði væri lokuð. Gísli vissi betur, tók frumkvæðið og leiddi tæplega 50 bíla lest út úr prísundinni alla leið suður, að því er segir í frétt Skessuhorns.

Gísli fór fram í salinn í Staðarskála þegar hann var búinn að borða til að reyna að ná farþegum sínum saman. „Þar var alveg pakkað af fólki, bara mannhaf. Klukkan var um hálf níu um kvöld. Það fór að kvisast út þegar ég leitaði að mínu fólki að ég væri að fara. Þessi fregn fór um allan salinn því allir voru að spá í hvað væri hægt að gera." sagði Gísli Jónsson í viðtali við Skessuhorn. Fjöldi fólks kom til Gísla og bað um að fá að vera í samfloti.  „Við fórum sennilega 40 til 50 bílar í einni lest frá Staðarskála. Það var ansi blint uppi á Laxárdalsheiðinni en ég var með ljóskastara á rútunni og sat hátt svo ég sá vel. Og svona keyrði öll hersingin. Hver og einn las ljósin á bílnum fyrir framan og þannig ók fólk þetta. Við vorum tvo og hálfan tíma að keyra frá Staðarskála hingað suður í Borgarnes,“ segir í Gísli í viðtalinu við Skessuhorn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert