Börn sem þekkja heimilisofbeldi af eigin raun eru sammála um eitt – ekki þegja um ofbeldið. Þau segja það réttu og bestu leiðina til þess að losna úr vítinu. Heimilisofbeldi er ekki einstakur atburður heldur viðvarandi ástand.
Margrét Ólafsdóttir og Ingibjörg H. Harðardóttir eru meðal höfunda bókarinnar Ofbeldi á heimili – Með augum barna, sem hefur bæði hlotið Fjöruverðlaunin í ár og viðurkenningu Hagþenkis.
Ingibjörg og Margrét starfa báðar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er lektor í þroskasálfræði. Hún er kennari, sérkennari og sálfræðingur að mennt og löggiltur klínískur barnasálfræðingur. Margrét er aðjúnkt í þroskasálfræði. Hún er kennari og sálfræðingur að mennt og sérfræðingur í skólasálfræði.
Bókin er framlag til rannsókna á heimilisofbeldi, vanrækslu og misbeitingu gagnvart börnum og mæðrum. Hún er jafnframt innlegg í baráttuna gegn þessu alvarlega þjóðfélagsmeini.
Meðal spurninga sem fengist er við í bókinni eru: Hvaða vitneskju hafa börn um heimilisofbeldi? Hvernig bregðast þau við því? Hvaða áhrif hefur ofbeldið? Hvernig finnst börnum samfélagið bregðast við? Hvað segja prentmiðlar um heimilisofbeldi?
Í rannsókninni var leitað til barnanna sjálfra til að athuga hvaða hugmyndir þau hefðu um heimilisofbeldi. Þar kom meðal annars fram að börn gera sér betur grein fyrir því ofbeldi sem beitt er á heimili en oft er talið og hversu óásættanlegt það er. Í bókinni segja börn frá skilningi sínum og viðbrögðum. Einnig lýsa mæður, sem bjuggu við ofbeldi, reynslu sinni. Rýnt er í orðræðu í prentmiðlum um heimilisofbeldi og rætt um aðkomu fagfólks og hlutverk grunnskólans.
Leyndin ekki jafn mikil og áður
Þær segja mikla rannsóknarvinnu liggja að baki bókarinnar, en vinna við hana hófst árið 2006 og hún kom út í fyrra. Á þeim tíma hefur margt breyst í umræðunni til hins betra og mun auðveldara í dag að ræða málefni sem áður hvíldi leynd yfir.
Margrét segir að heimilisofbeldinu fylgi mikil skömm og það skýri meðal annars þá þöggun sem hefur ríkt í samfélaginu. „Með bókinni viljum við aflétta þessari skömm því ef ekki er sagt frá ofbeldinu þá heldur það áfram að viðgangast.“
Þær segja að það hafi tekið talsvert á að hefja rannsóknina meðal annars vegna þess hversu erfitt það reyndist að fá aðgang að börnunum enda fannst mörgum að svona hluti ætti ekki yfir höfuð að ræða við börn. Þeim hafi hins vegar verið tekið vel af skólayfirvöldum og flestir skólar þegið fræðslu um heimilisofbeldi.
Hins vegar hafi gengið illa að fá allar spurningar sem til stóð að leggja fyrir börnin samþykktar. Þetta hafi verið bagalegt þar sem um samanburðarrannsókn var að ræða. Rannsóknin hér var sniðin að breskri rannsókn og sambærilegri rannsókn sem var gerð í Sviss. Því hafi verið mikilvægt að gefa ekki afslátt af spurningunum.
Vildu að rödd barnanna fengi að heyrast
„Við vildum að rödd barnanna fengi að heyrast og við sjáum það úti um allan heim, á sama tíma og sífellt fleiri ríki lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að það er vaxandi stuðningur við að börn fái að segja hvað þeim finnst í stað þess að aðrir séu að tala fyrir þeirra hönd ,“ segir Ingibjörg.
Rætt var við 1.100 grunnskólabörn í 4.-10. bekk í 13 grunnskólum og leiddi könnunin í ljós að íslensk börn þekkja almennt vel til heimilisofbeldis, geta skilgreint hugtakið með eigin orðum og hafa skoðanir á því. Alls þekkti fjórðungur aðspurðra einhvern sem hafði orðið fyrir heimilisofbeldi og í einhverjum tilvikum voru það börnin sjálf sem rætt var við sem höfðu upplifað heimilisofbeldi á eigin skinni.
Í kjölfarið var rætt við 14 börn og mæður hluta þeirra sem höfðu búið við heimilisofbeldi og segja þær Margrét og Ingibjörg að það hafi verið stórkostlegt að hitta þessar sterku mæður sem þær ræddu við en það var skilyrði fyrir viðtölunum við börnin að þær gæfu samþykki. Ekki hafi átt að taka viðtöl við mæðurnar heldur 30 börn en þær sjái ekki eftir því að hafa bætt mæðrunum við því margt fróðlegt hafi komið þar fram.
Ofbeldið litar allt líf barnanna
Til að mynda hafi mæðurnar ekki alltaf áttað sig á því hvað börnin vissu mikið um ofbeldið sem hafði viðgengist á heimilinu. Eitt af skilyrðunum sem sett voru fyrir þátttöku var að ofbeldinu væri lokið fyrir hálfu ári hið minnsta svo tryggt væri að ekki væri neinn settur í hættu vegna rannsóknarinnar.
„Á meðan á ofbeldinu stendur þá er ekki mikið rætt um ofbeldið en þegar ofbeldisgerandinn flytur út af heimilinu þá fer fjölskyldan að ræða saman um ógnina og ástandið. Þessi þögn þangað til er svo erfið fyrir börnin,“ segir Ingibjörg og bætir við að þegar ekki má tala um ofbeldið og það hjúpað þögn getur reynst erfiðara að vinna úr vandanum og leita sér hjálpar.
„Heimilisofbeldi er ekki einn einstakur atburður heldur viðvarandi ástand sem brýtur mann niður. Þetta viðvarandi ástand er það sem börnin eru að reyna að lýsa þegar þau tala um andlegt ofbeldi. Að geta aldrei um frjálst höfuð strokið og ofbeldið litaði allt þeirra daglega líf,“ segir Ingibjörg.
Margrét segir að þegar börn búa við aðstæður sem þessar fari þær að hafa áhrif á sjálfsmynd barna, vinatengsl, skólagöngu og svefn eða í raun og veru allt þeirra líf.
„Það sem börnin voru öll sammála um var að þeir sem upplifðu heimilisofbeldi ættu ekki að þegja. Þeirra ráð til þessara barna eru: Ekki þegja heldur gerið allt til þess að komast út úr þessum aðstæðum,“ segir Margrét.
En slíkt getur verið þrautin þyngri fyrir þá sem búa við heimilisofbeldi enda er það einu sinni svo að við viljum halda okkar einkalífi fyrir okkur, heimilið er okkar ekki annarra, segja þær Margrét og Ingibjörg.
Meðal úrræða sem börn hafa er að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og Neyðarlínuna, 112. Eins eru starfandi nemendaverndarráð í öllum grunnskólum sem er ætlað að veita nemendum aðstoð ef þau þurfa á henni að halda.
Þær segja að mörg þessara barna glími við innri togstreitu því að á sama tíma sem þau hafa andúð á ofbeldismanninum þá er erfitt að bera kala til þeirra sem þú deilir heimili með.
„Við vissum að hluti þeirra barna sem við ræddum við hafði upplifað ofbeldi á eigin heimili og stundum kom það í ljós þegar þau töluðu um hvað heimilisofbeldi þýddi: Eins og þegar hann lamdi mig, var meðal þess sem þau sögðu. Við létum öll börnin fá bæklinga með upplýsingum um hvar aðstoð væri að fá o.fl. Eins spurðum við þau við hvern þau myndu tala ef þau upplifðu slík ofbeldi,“ segir Ingibjörg og Margrét bætir við að þar hafi verið kynbundinn munur milli svara því stúlkur, einkum unglingsstúlkur, sögðust segja vinum frá. Eins var algengt að þau nefndu afa og ömmu sem þá sem þau myndu leita til.
Heimilið á að vera griðastaður ekki hryllingsstaður
Þær segja að meðal þess sem standi upp úr í rannsókninni sé að börn vita meira en haldið er og þau vilja láta tala við sig. „Þetta verður vonandi til þess að það verður til farvegur fyrir fullorðna til þess að ræða þessi mál við börn sín. Þetta er mál sem kemur öllum við og það verður að aflétta skömminni. Það eru ekki þolendurnir sem eiga að að bera skömmina, ábyrgðin er ekki þeirra,“ segir Ingibjörg.
Eða líkt og Margrét bendir á: „Heimilisofbeldi fer ekki eftir stétt né stöðu heldur getur það átt sér stað óáháð slíkum aðstæðum. En það á sér stað á heimilinu sem á að vera griðastaður fólks og það er óásættanlegt.“
Fimmtudaginn 19. mars verður haldið um bókina Ofbeldi á heimili - Með augum barna klukkan 14 - 17 í Hamri á Menntavísindasviði H.Í ( gengið inn frá Háteigsvegi).
Þar munu höfundar: Guðrún Kristinsdóttir prófessor, Ingibjörg H. Harðardóttir lektor, Margrét Ólafsdóttir aðjunkt, Margrét Sveinsdóttir M.Ed sérkennslustjóri Salaskóla og Nanna Þóra Andrésdóttir M.Ed. fagstjóri í MK, kynna bókina auk þess sem fjallað verður um viðbrögð við bókinni.
Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis segir að bókin sé „þarft og mikilvægt innlegg í samfélagsumræðuna og hafa höfundarnir unnið stórvirki í að varpa ljósi á aðstæður, þekkingu og seiglu barna og unglinga sem búa við ofbeldi og búa til farveg fyrir raddir þeirra inn í opinbera umræðu“. Þar segir jafnframt að bókin „einkennist af djúpri umhyggju og virðingu fyrir börnum og mæðrum sem þurfa að þola ofbeldi. Verkið ber einnig vitni áræði og hugrekki höfunda og ritstjóra. Þær taka kinnroðalaust fram að rannsókn þeirra sé byggð á femínískum fræðum og grundvallist á þeirri sýn að undirrót heimilisofbeldis sé undirskipun kvenna og barna í feðraveldissamfélagi“.