„Meistari Kush“ seldi fíkniefni á Facebook

Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag 28 ára karlmann í sjö mánaða fangelsi og svipti hann ökuréttindum ævilangt fyrir ítrekuð fíkniefna- og umferðarlagabrot. Athygli lögreglu beindist fyrst að manninum eftir að hún varð þess áskynja að hann hefði fíkniefni til sölu á Facebook undir notandanafninu Meistari Kush.

 Hafði hann sett inn samtals 388 auglýsingar á átta mismunandi sölusíður á Facebook og gefið væntanlegum kaupendum upp tvö mismunandi símanúmer sem lögregla hleraði í kjölfarið.

Við húsleit á heimili mannsins fundust 927.500 krónur í reiðufé. Samkvæmt skýrslu lögreglu fundust 299.500 krónur í peningaseðlum í plastboxi á efri hæð. Í stofunni voru tvær krukkur, önnur með 25 þúsund krónur í seðlum í hinni voru 18 þúsund krónur. Á stofuborði voru 28 þúsund krónur og loks fundust 557 þúsund krónur í peningaskáp í íbúðinni. Í peningaskápnum fannst einnig leigusamningur þar sem maðurinn var skráður leigutaki að bílskúr. Í skúrnum fannst töluvert magn fíkniefna, fíkniefni í sölueiningum og umbúðir til að setja fíkniefni í sölueiningar.

Lögregla hafði tvisvar eftir þetta afskipti af manninum vegna sölu fíkniefna og í seinna skiptið hafði lögregla einnig afskipti af tveim einstaklingum sem keypt höfðu fíkniefni af manninum. Í kjölfarið var gerð önnur húsleit heima hjá manninum og í tölvu á heimilinu fundust myndskeið og myndir samsvarandi þeim er voru inni á sölusíðunum á Facebook þar sem fíkniefni höfðu verið seld undir notandanafninu Meistari Kush.

Í dómnum segir að á myndskeiði inni á einni slíkri síðu sem sett hafði verið inn af Meistara Kush hafi mátt sjá hönd með fæðingarbletti sem kemur heim og saman við fæðingarblett á hendi mannsins.

„Upptæk eru gerð til ríkissjóðs fíkniefni sem haldlögð voru við rannsókn málsins, samtals 510,08 g af maríhúana, 4,90 g af hassi, 0,01 g af amfetamíni, 0,40 g af kókaíni og 0,85 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, og ætlaður ávinningur ákærða af sölu fíkniefna samtals að fjárhæð 1.328.500 krónur,“ segir í dómsorði. Eins og áður segir var maðurinn dæmdur í sjö mánaða fangelsi og sviptur ökuréttindum ævilangt en að auki var honum gert að greiða 871.495 krónur í sakarkostnað.

Fréttir mbl.is:

Norðlensk fíkniefni til sölu á Facebook

Selja vopn og fíkniefni á Facebook

„Þetta er allt of lítið mál“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert