„AFKLÁMVÆÐUM GEIRUNA - BRJÓST ERU EKKI KYNFÆRI.
LEYFUM ÞEIM AÐ LEIKA Í SUMARBLÆNUM OG SÓLINNI.“
Á þessum orðum hefst lýsingin á Facebook á viðburðinum Frelsum Geirvörtuna - Berbrystingar Sameinumst! sem boðað er til á Austurvelli í sumar. Gríðarleg umræða hefur skapast um frelsun gervörtunnar eða #freethenipple í dag og hefur verið boðað til geirvörtufrelsunar í allavega fjórum menntaskólum landsins og Háskóla Íslands á morgun.
Í yfirlýsingu þeirra sem standa að viðburðinum á Austurvelli segir að brjóst séu yndislega frábær og skemmtileg og komi í öllum stærðum og gerðum sem beri að fagna.
„Við erum þreyttar á því að þurfa að hylja okkur "afþvíbara". Hvernig meikar það sens að karlar megi vera berir að ofan, þótt svo þeir séu sumir hverjir með stærri túttur en sumar okkar? Við sættum okkur heldur ekki við að mega ekki gefa börnunum okkar að borða á almannafæri. wtf?“
Aðstandendur viðburðarins segjast gera sér grein fyrir því að ekki allir vilji bera sig að ofan þrátt fyrir að standa með málstaðnum og því verða brjóstabolir til sölu fyrir þær sem vilja sýna stuðning í verki.
Dagsetning viðburðarins er enn óljós að sögn aðstandenda. Hann er skráður á 1.júní en í viðburðarlýsingu segir að nákvæm dagsetning verði auglýst þegar nær dregur og útlit er fyrir sólríkum degi.