Brjóstapartí í Laugardalslaug

Gestum í brjóstapartíinu er frjálst að mæta eins og þeir …
Gestum í brjóstapartíinu er frjálst að mæta eins og þeir vilja. mbl.is/Kristinn

„Það var alltaf hugsunin að þetta yrði að árlegum viðburði,“ segir Karen Björk Eyþórsdóttir, einn skipuleggjenda Free The Nipple dagsins. Í dag er eitt ár liðið frá upphafi brjóstabyltingarinnar sem miðar að því að eyða tvískinnungi varðandi mannslíkamann.

Í tilefni þess verður fjölbreytt dagskrá á laugardaginn sem hefst með brjóstapartí í Laugardalslauginni klukkan 13. Gestum er velkomið að mæta eins og þeim sýnist; í blautbúningi eða berbrjósta. Plötusnúðurinn DJ Ragga mun halda uppi stuðinu til klukkan 16. Nokkur áhugi virðist á viðburðinum og hafa rúmlega 300 manns boðað komu sína á Facebook.

Klukkan 20 verður síðan ókeypis sýning á kvikmyndinni Suffragette í Bíó Paradís en myndin fjallar forvígismenn femínistahreyfingarinnar á fyrstu dögum hennar. Að lokinni sýningu verður Happy Hour og mun blaðakonan María Lilja Þrastardóttir leiða umræður um brjóstabyltinguna og kvikmyndina.

Eitt ár er liðið frá upphafi Free The Nipple byltingarinnar.
Eitt ár er liðið frá upphafi Free The Nipple byltingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvetur alla til að taka þátt

Til sölu verða einnig sérhönnuð nippluhálsmen sem hönnuð voru af Stefaníu Pálsdóttur og Sóleyju Sigurjónsdóttur sem einnig standa að dagskránni. Ágóðinn rennur til styrktar samtakanna Tabú sem beina sjónum að réttindabaráttu fatlaðra kvenna.

Á laugardaginn eftir viku, þ.e. 2. apríl, verða síðan tónleikar á skemmtistaðnum Húrra í tengslum við daginn þar sem Sykur, Boogie Trouble og Kælan Mikla troða upp. Frítt er inn á tónleikanna.

„Við hvetjum alla til að mæta á viðburðina og eins að taka þátt í byltingunni á samfélagsmiðlum,“ segir Karen Björk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert