Ekki eru allir hrifir af degi geirvörtunnar, deginum þar sem fólk er hvatt til að frelsa geirvörtuna með því að vera bert að ofan eða brjóstahaldaralaust.
Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, segist ekki skilja „þetta „free the nipple“ dæmi“ og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir segir daginn vera „hámark plebbismans“
Biggi og Guðfinna Jóhanna tjá sig bæði á Facebook. Fjölmargir, aðallega konur, hafa birt myndir af brjóstum sínum á Twitter í dag.
Frétt mbl.is: Margar frelsa geirvörtuna
Biggi lögga er ekki viss um að sú aðferð að bera á sér brjóstin á samfélagsmiðlum og á götum úti hjálpi málstaðnum.
„Ok, kannski er ég bara ógeðslega gamaldags en ég skil ekki alveg þetta „free the nipple“ dæmi. Ég veit vel að hugsunin er að mótmæla kúgun kvenna og því að bannað sé á mörgum stöðum í hinu vestræna samfélagi að bera á sér brjóstin, jafnvel þó það sé til að gefa börnum brjóst. Sú hugsun er að sjálfsögðu mjög góð. Ég er bara alls ekki svo viss um að sú aðferð að bera á sér brjóstin á öllum samfélagsmiðlum og á götum úti sé eitthvað að hjálpa þessum göfuga málsstað,“ skrifar Biggi.
Hann segir að konur geti gleymt því að halda að mönnum finnist ekkert kynferðislegt við brjóstin sem margar sýna óhikað í dag.
„Sannleikurinn er nefnilega sá að þegar karlmenn sjá öll þessi brjóst þá hugsa þeir ekki „jebb, hættum að kúga konur“ eða „það er rétt, þetta eru bara verkfæri bara til að gefa börnum mjólk“. Ó nei hósei. Það sem flestir karlmenn hugsa er bara einfaldlega; BRJÓST! Lítil brjóst, stór brjóst, lafandi brjóst, stinn brjóst og bara allskonar brjóst. Ef þið viljið bera brjóstin stelpur þá er það sjálfsagt mál. Ef það er samt ekki í þeim tilgangi að gefa barni þá getið þið samt því miður gleymt því að halda að mönnum finnist ekkert kynferðislegt við það. Sorrý. Það er bara þannig,“ skrifar Biggi.
„Ég verð líka að viðurkenna að ég er líka pínu smeykur við að ungar og óharnaðar stúlkur fljóti með í þessari öldu og birti af sér brjóstamyndir á veraldarvefnum. Hvað ef þær sjá eftir þessu og hvaða afleiðingar getur þetta haft á þeirra sálartetur? Ég vona auðvitað að allt fari vel og allir standi upp stoltir og ánægðir en það er þetta stóra „hvað ef ekki?“. Hversu margar stelpur ætli séu að bera á sér brjóstin til að mótmæla stöðu kvenna og hversu margar ætli séu að því til að kalla eftir athygli? Án gríns. Það er meira að segja dálítil þversögn í þessu.
Ég sá mynd á netinu af íslensku brjósti og undir því stóð; „Þessi er hérna til að gefa börnum að borða. Troðið því upp í feðraveldið á ykkur“. Ok, töff, ekki spurning. Ég er að spá í að skella inn mynd af rassinum á mér á fésbókina á eftir; „Þessi er til að kúka með. Troðið því upp í.......“ Jájá, eða ekki,“ skrifar Birgir að lokum.