Ótímabært að taka ákvörðun

Íslensk erfðagreining hefur safnað viðamiklum erfðaupplýsingum.
Íslensk erfðagreining hefur safnað viðamiklum erfðaupplýsingum. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir ekki tímabært að taka ákvörðun um hvort rúmlega 2.000 íslenskir karlar og konur eigi að fá upplýsingar sem Íslensk erfðagreining (ÍE) hefur í höndum en þar kemur fram að fólkið beri erfðibreytileika gen sem eykur mjög líkur á að það fólk fái krabbamein.

mbl.is fjallaði um málið í gær.

Þorbjörn segir málið flókið og ef til vill ekki sé ekki til eitt ákveðið svar, mismunandi svör henti mismunandi einstaklingum. Málið þurfi að ræða vel og vandlega á næstu árum af læknum, siðfræðingum og ekki síst almenningi.

„Sýnin eru upphaflega gefin Íslenskri erfðagreiningu til vísindarannsókna. Menn hafa kannski ekki átt von á að fá upplýsingarnar í höfuðið síðar. Þetta eru sjónarmið sem þarf að hafa í hug og síðan fleygir erfðatækninni hratt fram þessi árin. Hvað ef þú stendur frammi fyrir því að þú sért með aukna áhættu á því að fá fimmtíu sjúkdóma, áttu að fá að vita af því,“ spyr Þorbjörn og bætir við að það gæti orðið fólki óbærilegt.

Erfitt að komast að niðurstöðu í skyndi

Þorbjörn bendir á að hafa verði í huga að í grunninum geti verið mikilvægar upplýsingar, líkt og Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, hafi þegar bent á. Hann veltir fyrir sér hvort hægt sé að bjóða upp á eitthvað í forvarnarskyni sem myndi réttlæta að einstaklingar verði látnir vita, hvort nálgast eigi þá af fyrra bragði eða hvort eigi að láta þá vita að upplýsingarnar séu aðgengilegar en þeir verði sjálfir að óska eftir þeim.

„Þetta eru allt spurningar sem ég held að við séum ekki alveg komin að niðurstöðu um. Þetta er umræða sem þarf að taka á næstu árum. Þetta er svo stórt mál að það hlýtur að vera erfitt að komast að niðurstöðu í skyndi. Það verður líka alltaf stærra og stærra vegna þess að tækninni fleygir fram,“ segir Þorbjörn. 

Frétt mbl.is: Niðurstöður deCODE nýttar í heilbrigðisþjónustu?

Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert