Sakar Kvennablaðið um drusluskömmun

Eft­ir að #FreeT­heNipple bylt­ing­in fór af stað á sam­fé­lags­miðlum var …
Eft­ir að #FreeT­heNipple bylt­ing­in fór af stað á sam­fé­lags­miðlum var boðað til ým­issa viðburða, þar á meðal sund­ferð þar sem geir­vört­urn­ar voru frelsaðar. mbl.is/Kristinn

Blað sem kallar sig „Kvennablaðið“ ætti kannski að hugsa sig tvisvar um áður en það birtir pistil sem er lítillækkandi og bein vanvirðing við stóran hluta kvenna á Íslandi og við þá réttindabaráttu sem þúsundir íslenskra kvenna taka þátt í, í gegnum til dæmis Druslugönguna og #freethenipple. Blaðið ætti enn fremur að skammast sín fyrir að nota nafn Druslugöngunnar til að ýta undir drusluskömmun.

Þetta skrifar Hildur Guðbjörnsdóttir í pistli sínum „Ekki þín drusluganga“ á vef Knúz í dag. Vitnar hún þar í pistil sem var birtur á vefmiðli Kvennablaðsins fyrir tveimur dögum þar sem ritstjóri Kvennablaðsins skrifar um brjóstabyltinguna sem hrint var af stað í vikunni.

„Höfundur kemur þar ekki aðeins upp um að hún hafi gjörsamlega misskilið #freethenipple frá upphafi til enda, hún virðist einnig hafa misskilið veigamikla þætti í menningu okkar og samfélagi sem tengjast átakinu. Pistillinn gefur sig út fyrir að vilja stuðla að verndun og öryggi, en gerir í raun lítið annað en að drusluskamma ungar konur og gefa í skyn að þær séu ekki færar um sjálfstæða hugsun. Auk þess sýnir höfundur fádæma dónaskap og vanvirðingu í garð kvenna,“ skrifar Hildur.

Segir hún Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, höfund pistilsins, fullyrða að konur fari ekki sjálfar með vald yfir líkama sínum og gera lítið úr upplifun ungra baráttukvenna á eigin valdeflingu, femínískri samstöðu íslenskra kvenna og þeim krafti sem þær upplifðu í gegnum hópmótmæli til stuðnings ungri stúlku.

„Því næst neitar hún því að nekt kvenkyns brjósta á almannafæri teljist yfirhöfuð skammarleg í okkar samfélagi. Eins fáránleg og sú staðhæfing er, þá er kannski besta sönnun þess hversu röng hún er hennar eigin pistill. Viðbrögð höfundar við berum brjóstum sýna einmitt hversu sterk skömmin er og hversu mikilvægt það er að berjast gegn henni. Ef það væri engin skömm að berum brjóstum hefði þetta átak ekki valdið því fjaðrafoki sem það gerði og höfundur hefði aldrei skrifað pistilinn til að byrja með.“

Hildur segir pistil Kvennablaðsins vera hreint út sagt birtingarmynd feðraveldisins „sem rís á afturlappirnar og spýr eldi um leið og því er storkað. Höfundur gerist hér sekur um allt það sem verið er að reyna að berjast gegn með brjóstabyltingunni“. Segir hún höfund gefa í skyn að þolendur beri ábyrgð á því ofbeldi sem aðrir beita þá. „Það er ekki hægt að bera ábyrgð á því að vera ekki beittur kynferðisofbeldi. Alls ekki. Aldrei. Á ENGAN hátt. Punktur.“

Þá segir hún hefndarklám, hrelliklám og hvers kyns kynferðislegt ofbeldi ekki einungis vandamál foreldra og uppalenda, „eins og er haldið fram í pistlinum, heldur vandamál okkar allra, samfélagsins í heild, og stjórnast af viðhorfum okkar allra. Við þurfum allsherjar viðhorfsbreytingu. Þetta eru góðar fréttir, því þær þýða að við GETUM stöðvað kynferðislegt ofbeldi, ef við berjumst bara nógu mikið fyrir því og reynum að losa okkur sjálf og aðra við þær kúgandi hugmyndir sem okkur hafa verið kenndar frá blautu barnsbeini. Ef engum fyndust brjóstamyndir skammarlegar væri ekki hægt að hrella fólk með þeim. Ef stelpum er sama þótt aðrir sjái á þeim geirvörturnar geta hrelliklámsníðingar ekki hrellt þær. Í því felst valdeflingin.

Hér má lesa pistilinn í heild.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins. Ljósmynd/Snorri Sturluson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka