„Það fór ekki framhjá nokkrum manni sem skoðaði upptökuna að viðbrögð þingvarðarins og þingvarðanna voru mjög eðlileg,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, en á fundi forsætisnefndar í gær var farið yfir myndbandsupptöku af því þegar fámennur hópur hóf að rita 888 fyrir utan þinghúsið og síðan kastaðist í kekki milli mótmælanda og þingvarðar.
Hópurinn hafði komið saman við þinghúsið til að mótmæla því að 888 dagar voru liðnir síðan Alþingi samþykkti að hefja rannsókn á einkavæðingu bankanna en sú rannsókn er ekki hafin. Hluti mótmælanna fólst í því að krota á stéttina við Alþingishúsið. Þingverðir brugðust við með því að sprauta vatni á stéttina til þess að þrífa hana.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, óskaði í kjölfarið eftir því að forseti Alþingis rannsakaði málið sem var gert og hittist forsætisnefnd í gær til að fara yfir málið og skoða gögn úr eftirlitsmyndavél Alþingis.
Einar segir að upptökurnar sýni mjög vel að viðbrögð þingvarðarins hafi verið eðlileg og rétt.
„Þarna sést mjög glögglega að atvikið sem um ræðir var þannig að maður kom aðvífandi og réðist á þingvörðinn sem hratt honum vitaskuld af höndum sér. Aðhafðist ekkert frekar en hélt áfram að þrífa burtu krotið á gangstéttinni við þinghúsið.
Og það véfengdi enginn sem horfði á þetta myndband að um var að ræða fullkomlega eðlileg viðbrögð þingvarðanna við þessar aðstæður, sem ekki kalla á nein eftirmál. Þingverðirnir komu fram með ábyrgum hætti og ekkert sem þeir gerðu var að mínu mati aðfinnsluvert,“ segir Einar.
Jón Þór Ólafsson er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og samkvæmt upplýsingum blaðsins sat hann fundinn. Ekki náðist í hann við vinnslu fréttarinnar.