Að minnsta kosti tíu létust í stóru snjóflóði á Everest í dag, sem féll í kjölfar öflugs jarðskjálfta sem reið yfir Nepal. Meðal þeirra látnu eru erlendir göngugarpar sem voru að klífa fjallið þegar snjóflóðið féll samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar.
Fátt er um fréttir af svæðinu en fjallgöngumaðurinn Daniel Mazur hefur meðal annars sagt að grunnbúðirnar séu mikið skemmdar og þeir sem séu í fyrstu búðunum sitji þar fastir.
Tveir Íslendingar, Vilborg Arna Gissurardóttir og Ingólfur Ragnar Axelsson, eru við Everestfjall sem stendur. Fjölskylda og vinir Vilborgar og Ingólfs hafa staðfest á Facebook að þau séu bæði óhult eins og stendur í fyrstu búðum fjallsins og að þeim verði bjargað á næstu dögum.
Á facebooksíðu Vilborgar kemur fram að hópurinn í fyrstu búðunum sé vel á sig kominn og hyggist enn klífa tindinn. Þau munu eyða næstu tveimur dögum í búðunum áður en haldið verður áfram með aðlögunarferðina og farið upp í næstu búðir.
Hátt í þúsund eru taldir hafa látist vegna jarðskjálftans í Nepal, en hann fannst alla leið til Indlands og var 7,9 stig. Fjögur íslensk ungmenni eru stödd á svæðinu en þau eru óhult.
Frétt mbl.is: Mannskæður jarðskjálfti í Nepal
Frétt mbl.is: Vilborg og Ingólfur óhult
Frétt mbl.is: Íslensku ungmennin í Nepal óhult