Spyr Bjarna um laun ljósmæðra

Jón Þór Ólafsson pírati.
Jón Þór Ólafsson pírati. mbl.is/Kristinn

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir skriflegu svari frá fjármálaráðherra vegna takmarkana á launagreiðslum til ljósmæðra í verkfalli. Haft er eftir formanni Ljósmæðrafélags Íslands í fréttum RÚV að Fjársýsla ríkisins hafi haldið eftir 60% af launum ljósmæðra um mánaðarmótin.

Jón Þór vill vita af hverjum og hvenær hafi verið tekin ákvörðun um að takmarka launagreiðslur ljósmæðra tekin, af hverjum hún hafi verið studd og hverjir hefðu getað komið í veg fyrir eða takmarkað þessa skerðingu á launagreiðslum. 

Þá vill hann vita hversu miklar launaskerðingarnar voru og á grundvelli hvaða laga, reglna, reglugerða eða annarra réttarheimilda launagreiðlurnar voru takmarkaðar í hverju tilfelli fyrir sig.

Að lokum vill hann vita hvernig og hvenær ljósmæður geti sótt laun sín til ríkisféhirðis. „Leggjast vextir á laun sem haldið var eftir og mun ríkið hafa frumkvæði að því að bæta ljósmæðrum skaðann sem af þessum aðgerðum hlýst fyrir fjárhag heimilis þeirra,“ spyr Jón Þór.

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins segir að Fjársýsla ríkisins hafi haldið eftir sextíu prósentum af launum ljósmæðra um mánaðarnótin þó þær hafi einungis verið tvo daga í verkfalli. Dæmi séu um að laun fyrir tvo mánuði hafi verið dregin af þeim sem fá laun greidd fyrirfram.

Sagði Áslaug Íris Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við RÚV að ljósmæður séu ekki kátar vegna málsins. Margar þeirra hafi unnið nánast alla sína vinnuskyldu og sumar þeirra hafi einungis verið einn til tvo daga í verkfalli.

mbl.is hefur ítrekað reynt að ná tali af Áslaugu Írisi í morgun og í gær en án árangurs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert