Ég fer á meðan þörfin er til staðar

Andri Rafn Sveinsson.
Andri Rafn Sveinsson. mbl.is/Styrmir Kári

Tæpum tveimur sólarhringum eftir að 7,9 stiga jarðskjálfti varð í Nepal í lok apríl með þeim afleiðingum að mörg þúsund létust og tugþúsundir slösuðust var ungur björgunarsveitarmaður, Andri Rafn Sveinsson, lagður af stað á hamfarasvæðið. Hann segir aldrei hafa komið annað til greina en að gefa kost á sér í verkefnið, þörfin fyrir að láta gott af sér leiða rekur hann áfram.

Andri starfar með fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, sem er hluti af viðbragði íslensku alþjóðasveitarinnar. Um leið og fréttir bárust af jarðskjálftanum laugardaginn 25. apríl og ástandinu í landinu kom fjarskiptahópurinn saman og í framhaldinu var ákveðið að einn úr þeirra hópi færi út og yrði alþjóðasamtökunum NetHope til aðstoðar, en samtökin aðstoða hjálparsamtök við fjarskipti. Andri gaf kost á sér, pakkaði niður á 45 mínútum og var þar með ferðbúinn. Að auki fór hann með um 90 kíló af ýmsum búnaði með sér.

Eftir nokkurt ferðalag með viðkomu í Kaupmannahöfn og Doha í Katar lenti Andri á alþjóðaflugvellinum í Katmandu, höfuðborg Nepal, um hádegisbil á þriðjudegi. Á móti honum tók annar Íslendingur sem starfar með NetHope, Gísli Rafn Ólafsson, sem hafði komið til Nepal daginn áður.

„Þegar ég lenti úti voru ennþá talsverðir eftirskjálftar,“ segir Andri. Hann segir flugvöllinn hafa verið nokkuð illa farinn eftir skjálftana og greinilegt að hann hafi ekki verið byggður fyrir þá miklu flugumferð sem fylgdi í kjölfar hamfaranna. „Þarna voru t.d. nánast engir lyftarar og fá tæki til að afferma vélar sem voru að koma með hjálpargögn.“

Hann segir heimamenn hafa hafst við að mestu utandyra fyrstu dagana eftir að hann kom út. Margir misstu heimili sín og aðrir hefðu ekki þorað að vera inni í húsum sínum. „Menn komu sér upp skýlum undir segldúkum eða plasti. Ég sá fólk á umferðareyjum sem voru metri á breidd, þar hafði það reist lítil skýli og hafðist þar við.“

Fengu aðstoð frá Hafnarfirði

Meðal verkefna Andra í Nepal var að vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar, koma á netsambandi fyrir Sameinuðu þjóðirnar og setja upp senda í dreifðum byggðum landsins sem fóru illa út úr skjálftanum. „Í stuttu máli tryggjum við fjarskiptasamband milli þeirra hjálparaðila sem starfa á hamfarasvæðinu,“ segir Andri, spurður um hlutverk NetHope. „Við komum upp gervihnattasambandi og HF- og VHF-sambandi sem er sú tíðni sem talstöðvar nota. Það sem gerðist í Nepal var að rafmagnið fór, þar með fóru GSM-sendarnir út og fjarskipti voru í lágmarki.“

Að auki sér NetHope um ýmsar tæknilegar uppsetningar og kemur tækjabúnaði á borð við gervihnattasíma, símakort í viðkomandi löndum, talstöðvar, netbúnað og fartölvur til hjálparsamtaka. Búnaðinn fá samtökin að gjöf eða láni frá framleiðendum hans eða kaupa hann fyrir gjafa- og söfnunarfé.

Fjarskiptahópurinn í Hafnarfirði var á stöðugri vakt á meðan Andri var ytra og lagði honum og félögum hans í NetHope lið á ýmsan hátt. M.a. með því að leita að gögnum um staðhætti og aðstæður og vinna úr þeim, auk tæknilegrar aðstoðar.

Sjáumst helst ekki aftur

Talsverður fjöldi fólks kom víða að úr heiminum til björgunarstarfa í Nepal. Andri segir allan gang vera á því hvort um sé að ræða sjálfboðaliða eða fólk sem hefur slík störf að atvinnu sinni, hann segir sama fólkið hittist aftur og aftur á þessum alþjóðavettvangi neyðarhjálpar og vinskapur myndist. „Við kveðjumst þó alltaf með orðunum; sjáumst helst ekki aftur. Við erum að hittast við erfiðar aðstæður, það hafa orðið hamfarir. Auðvitað vonum við að það líði sem lengstur tími þangað til það gerist aftur.“

Andri fór frá Nepal á þriðjudaginn í síðustu viku, 12. maí. Er hann var að funda með samstarfsfólki sínu skömmu fyrir brottför reið aftur yfir kröftugur skjálfti, 7,3 stig, og í honum létust a.m.k. 70 manns og þúsundir slösuðust. „Það var skrýtin tilfinning, fyrst héldum við að þetta væri eftirskjálfti en hann stigmagnaðist og stóð yfir í um mínútu.“ Varstu hræddur? „Já, ég get ekki neitað því. En ég var mjög feginn að vera staddur nákvæmlega þar sem ég var; á skrifstofu inni í gámi á svæði hjálparstarfsmanna.“

Var á ebóluslóðum

Andri er 26 ára og starfar hjá Ellingsen þar sem hann veitir ráðgjöf um reiðhjól og annan búnað. Hann hefur starfað með björgunarsveitum frá 14 ára aldri, fyrst í heimabænum Reyðarfirði og gekk síðan til liðs við Björgunarsveit Hafnarfjarðar þegar hann flutti á höfuðborgarsvæðið. Þar er hann í áðurnefndum fjarskiptahóp og einnig í leitarhóp. Hann hefur áður farið til hjálparstarfa á vegum NetHope, til Síerra Leóne fyrr á árinu. Þar geisaði ebólufaraldur, núna lá leiðin á jarðskjálftasvæði.

Hvað fær ungan mann til að víkja öllu til hliðar og fara til hjálparstarfa á fjarlægar slóðir þar sem hættuástand ríkir? „Ég hef mikla þörf fyrir að gefa af mér. Mér finnst gott að vita að ég geri gagn. Svo hef ég einfaldlega mikinn áhuga á hjálparstörfum.“

Færirðu aftur út á morgun ef þú yrðir beðinn um það? „Já. Ég fer á meðan þörfin er til staðar.“

NetHope greiðir fyrir fjarskiptum

Fjarskipti riðlast oft þegar hamfarir á borð við jarðskjálfta ríða yfir. Til að skipuleggja björgunarstarf og neyðaraðstoð er þörf á greiðum og öruggum samskiptaleiðum á milli hjálparsamtaka og annarra aðila og þar kemur NetHope til sögunnar. Um er að ræða regnhlífarsamtök 42 hjálparsamtaka, m.a. Save the Children og Alþjóða Rauða krossins.

Þegar Andri og aðrir björgunarsveitarmenn sem starfa á alþjóðavísu fara í ferðir sem þessar er sjaldan vitað á hverju er von þegar á staðinn er komið og því eru þeir við öllu búnir. Í farteski Andra var því m.a. tjald og annar viðlegubúnaður, þurrmatur til tveggja vikna og nokkrir lítrar af vatni. „Ég vissi ekkert hvað ég gæti fengið þarna,“ segir hann. „Ástandið var þó miklu betra en ég bjóst við, þarna var matur og vatn og ég fékk inni á gistiheimili.“

Fyrri skjálftinn í Nepal varð 25. apríl og sá síðari …
Fyrri skjálftinn í Nepal varð 25. apríl og sá síðari 12. maí. Þúsundir létu lífið og tugþúsundir slösuðust. Ljósmynd/Andri Rafn Sveinsson
Liðsmenn NetHope að störfum í Nepal. Samtökin koma m.a. upp …
Liðsmenn NetHope að störfum í Nepal. Samtökin koma m.a. upp fjarskiptasambandi. Ljósmynd/Andri Rafn Sveinsson
Sænskur félagi Andra í barnahópi er þeir settu upp fjarskiptabúnað …
Sænskur félagi Andra í barnahópi er þeir settu upp fjarskiptabúnað fyrir sjúkrahús. Ljósmynd/Andri Rafn Sveinsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert