Margir foreldrar velta því fyrir sér reglulega hvort börn þeirra séu of mikið í tölvunni og rifja jafnvel upp fyrir börnum sínum þann tíma er þeir voru sjálfir að alast upp. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og minningar líka því oft virðist líf foreldranna hafa snúist um útileiki þar sem allir voru vinir og veðrið frábært. En raunin er kannski aðeins önnur, að minnsta kosti hvað varðar veðrið. En það hefur margt breyst og þó að foreldrarnir upplifðu sjónvarpið sem einn helsta afþreyingarmiðilinn þegar þeir voru að alast upp þá hafa tölvur og snjalltæki orðið helstu afþreyingarmiðlar nútímans, hjá börnum jafnt sem fullorðnum.
Eyjólfur Örn Jónsson sálfræðingur hefur undanfarin tíu ár einkum aðstoðað fólk sem glímir við netfíkn, það er tölvan hefur tekið yfir og stjórnar ferðinni í lífi þess. Á þessum tíu árum hefur hann aðstoðað á milli tvö og þrjú þúsund manns og eru unglingspiltar og ungir karlar þar í miklum meirihluta.
Hann segir að stærsti hópurinn séu strákar á aldrinum 13-25 ára en til hans hefur leitað fólk á sjötugsaldri sem og börn niður í sjö ára aldur. Þegar um börn og ungmenni er að ræða þá eru það foreldrarnir sem yfirleitt hafa samband en í einhverjum tilvikum eru það barnaverndaryfirvöld eða aðrir opinberir aðilar.
Eru ekki lengur þátttakendur í lífinu
Oft vaknar fólk upp við vondan draum þegar skólar hafa samband og spyrja hverju sætir að krakkarnir hafa kannski ekki látið sjá sig í langan tíma og eru farin að falla á prófum. Eins vakna oft grunsemdir meðal foreldra þegar vinir barnanna hætta að hafa samband og viðkomandi hangir endalaust í tölvunni.
Eyjólfur segir að þeir sem eru eldri átti sig oft sjálfir á vandanum. „Þeir gera sér grein fyrir því að þeir eru ekki lengur þátttakendur í lífinu, falla í skóla og detta út af vinnumarkaði. Það eina sem er í gangi í þeirra lífi er tölvan og þeir upplifa kannski kvíða og þunglyndi. Það má eiginlega segja að þeir upplifi að þau hafi misst af lífinu,“ segir Eyjólfur.
Mjög hefur verið rætt um netfíkn undanfarin ár en Eyjólfur segir að það hugtak sé ekki lengur notað enda ólíkt annarri fíkn. Í dag tala sérfræðingar um ofnotkun enda frekar árátta sem er afleiðing af öðru. Það er vandamál sem leggst ofan á annað vandamál svo sem þunglyndi og kvíða.
Það eru ekki tölvurnar sem gera fólk veikt
„Því það eru ekki tölvurnar sem gera fólk veikt heldur leitar fólk í það sem lætur því líða betur. Ef það væru tölvurnar sem gerðu okkur veik þá væri vandlifað í þessum heimi og lausnin er ekki endilega að slökkva á tölvunni heldur að hætta að ofnota hana og gera sér grein fyrir því að það er líf fyrir utan skjáinn. En þessi ofnotkun flækir oft þann vanda sem er fyrir og til þess að komast að rót vandans verður að leysa þennan vanda fyrst,“ segir Eyjólfur.
„Það fyrsta sem við gerum er að aðstoða fólk við að takast á við vandann tengdan tölvunotkuninni og það er ekki fyrr en við erum búin að því sem það er hægt að glíma við rótina, hvers vegna viðkomandi leitar þangað? Er það þunglyndi, félagsfælni eða hvað annað sem veldur því að tölvan verður meira aðlaðandi en nokkuð annað,“ segir Eyjólfur.
Þú getur verið hver sem er
Hann bendir á að hver sem er geti búið til sinn eigin sýndarheim. „Þú getur verið hver sem er og leikið hvaða hlutverk sem þig langar til. Þú getur auðveldlega skipt um kyn og ef þér líður vel í tölvuleikjum þá er svo auðvelt að ýta á einn eða tvo takka og heimurinn er þinn. Fyrir þá sem til að mynda eiga fáa vini eða líður illa þá getur þetta verið svo auðveld leið til þess að flýja gráan raunveruleikann sem lætur þér líða illa. Þetta er ekkert mál í tölvunni en þetta er talsvert meira mál í raunveruleikanum þar sem tölvan veitir möguleika á veruleika sem er ekki til,“ segir Eyjólfur.
Bandaríski sálfræðingurinn Kimberley Young er frumkvöðull í rannsóknum á netfíkn og hún líkir netfíkn við matarfíkn. Því það er ýmislegt sem þessar fíknir eiga sameiginlegt, þú klippir ekki á nútímann og lokar tölvunni – ekkert frekar en þú segir matarfíklinum að hætta að borða nema að þú viljir að hann deyi.
Vinnur náið með foreldrum
„Tölvuleikir eru yfirleitt frábærir og netið er ekkert að fara frá okkur,“ segir Eyjólfur. „Það sem við reynum er að sýna fólki fram á að það er hægt að gera ýmislegt annað, til að mynda að hitta annað fólk og spila en margir þessara krakka eru félagslega einangraðir og eiga fáa vini. Með því að hitta aðra sem eru með svipuð áhugamál er oft hægt að brjóta ís sem verður til þess að vinátta myndast meðal einstaklinga sem kannski héldu að þeir gætu ekki átt samskipti við aðra annars staðar en í tölvunni,“ segir Eyjólfur.
Það mæðir mikið á foreldrum ungmenna sem glíma við vanda, hvort heldur sem vandinn tengist netnotkun eða öðru. Eyjólfur segir að hann vinni mikið og náðið með foreldum þeirra ungmenna sem hann er að aðstoða og oft þurfi að kenna þeim að setja ramma og reglur því allur gangur sé á því hvort einhverjar reglur eru á heimilum um tölvunotkun.
„Foreldrar vinna mikið hér á landi og eiga oft erfitt með að fylgjast með því hvað börn þeirra eru að gera á daginn. Stundum eru reglur til staðar en því miður er þeim ekki alltaf fylgt en ég finn að það eru fleiri og fleiri farnir að setja slíkar reglur og það er af hinu góða,“ segir Eyjólfur.
Raunverulegir vinir eða bara netvinir
Um leið og heimurinn smækkar í gegnum tölvuna og öll samskipti orðin miklu auðveldari heimshluta á milli þá er þetta blekking á sama tíma. „Við höldum að við eigum fullt af nánum vinum og vissulega eru þetta vinir okkar en bara netvinir. Þegar við þurfum á raunverulegum vinum að halda þá eru þeir kannski ekki til staðar. Krakkar eru jafnvel hætt að hittast til að spila tölvuleiki (lana) heldur sitja þeir hver í sínu horni heima hjá sér og tala saman í gegnum spjallrásir í tölvunni,“ segir Eyjólfur og bendir að þetta sé miður því á slíkum lönum hafi krakkar með svipuð áhugamál og kannski með sömu vandamál, hist og spjallað saman í raunheimi.
Netnotkun Íslendinga er gríðarleg og árið 2014 töldust 97% íbúa landsins til reglulegra netnotenda. Er það hæsta hlutfall sem mælist í Evrópu, en meðaltal reglulegra netnotenda í löndum Evrópusambandsins er 75%.
Mikil aukning hefur orðið í notkun einstaklinga á farsímum og snjallsímum til að tengjast netinu utan heimilis og vinnu, og á það nú við um 59% netnotenda (tölur Hagstofu Íslands í árslok 2014). Stór hluti þeirra er skráður á samfélagsmiðla og ofnotkun hér á landi er að aukast hjá öllum aldurshópum enda eftir því sem valkostirnir verða fjölbreyttara á netinu því eftirsóknarverðara verður það fyrir stærri hóp.
Aldrei friður nema meðvituð ákvörðun sé tekin um að aftengja
Eða eins og Eyjólfur bendir á þá er líf okkar að breytast – að sumu leyti er það gott en að öðru leyti ekki. Til að mynda var það þannig áður að það fyrsta sem barnið sá voru foreldrarnir en nú er það síminn því foreldrarnir eru faldir á bak við símana að smella af myndum af barninu.
„Símarnir eru orðnir þannig að það er aldrei friður nema þú takir meðvitaða ákvörðun að fá frið og það er eiginlega nauðsynlegt það er engum hollt að búa við stöðugt áreiti. Það er allt í lagi að ekki sé hægt að ná í mann,“ segir Eyjólfur.
Fótbolti með fótboltakrökkum og tölvuleikir með tölvuleikjakrökkum
Hann segir þetta spennandi tíma en að við verðum að vera á varðbergi varðandi börn og netnotkun. „Við verðum að tala við börnin okkar og þau við okkur og þá á ég við eðlileg samskipti en ekki bara í gegnum tölvur. Því tólf ára drengur, sem álítur það eðlilegasta hlut í heimi að spjalla við félaga sína í gegnum tölvuna, veit ekki betur – það er okkar hlutverk að leiðbeina honum með aðra samskiptamáta – til að mynda að tala við vini sína augliti til auglitis.
Við viljum að foreldrar fylgist með börnunum sínum og ef athygli barna er farin að fara frá öðrum áhugamálum, vinirnir hættir að koma í heimsókn og það eina sem kemur í staðinn er tölvan þá er tímabært fyrir foreldra að grípa inn í. En við bendum líka foreldrum á að gleyma því ekki að setja sig í þeirra spor og fylgjast með. Til að mynda að taka þátt í tölvuleikjunum með þeim og þekkja leikina sem þau spila. Þetta er ekkert öðruvísi en þegar foreldrar spila fótbolta með fótboltakrökkunum.
Því börn þurfa á athygli að halda og að athyglin beinist að þeim en það sé ekki verið að predika yfir krökkunum um netnotkun þeirra á sama tíma og foreldrið er á Facebook. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir samband foreldra og barns. Ef foreldrar vita í raun og veru hvað börnin eru að gera og gott samband er á milli kynslóða þá er ekkert að því að leyfa börnum að vera með tölvur eða snjalltæki inni hjá sér en um leið og þú ert kominn með vandamál þá þarftu að grípa inn. Því ungt fólk á að flytja að heiman þegar það er tímabært en ekki bara inn í herbergið sitt.“
Viðmiðið sem er notað erlendis þegar rætt er um ofnotkun eru 30-38 tímar á viku og segir Eyjólfur að þar sé átt við tímann sem fer í afþreyingu í tölvunni eða snjalltækinu. Þessi tímamörk eru hins vegar mjög umdeild og almennt ekki álitin bestu viðmiðin en beðið er eftir frekari greiningum á þessu sviði.
Höfnunin getur verið alger þegar slökkt er á netinu
Í sumum tilvikum er hegðunin orðin svo öfgafull að foreldri þarf einfaldlega að slökkva á netinu og segja upp áskrift. Reglulega birtast fréttir um að kalla hafi þurft lögreglu til þegar komið hefur til handalögmála milli foreldra og barns vegna netnotkunar en Eyjólfur segir að það gerist kannski ekki á hverjum degi að foreldrar missa tökin en það sé talsvert algengara en við vitum af.
„Það ratar ekki alltaf í fréttirnar en tilvikin eru því miður allt of mörg. Þegar börn eru búin að vera allt of mikið í tölvunni getur staðan verið sú að tilfinningaþroski þeirra er óeðlilegur og viðkomandi hefur ekki heimil á tilfinningum sínum. Þegar slíkur einstaklingur lendir í mótlæti getur voðinn verið vís og viðbrögð hans ofsafengnari en hjá flestum öðrum. Ef við erum með 15-16 ára gamlan strák sem er búinn að vera í tölvunni síðan hann var 8-9 ára þá er hætta á að líf hans sé þar, bæði vinir og árangur í lífinu (til dæmis stigasöfnun í leikjum), þá er höfnunin alger þegar foreldrarnir slökkva á tölvunni og loka fyrir aðgang að netinu,“ segir Eyjólfur og bætir við að það megi ekki taka slík öfgafull skref heldur verði að stíga skrefið í áföngum.
En foreldrar sem eiga börn sem eru kannski hætt að þrífa sig, hætt að mæta í skóla, kúka í pizzakassa, pissa í flöskur og lifa tvöföldu lífi, eru oft gripnir slíkri örvæntingu að þeir sjá ekki aðra leið. Það eru dæmi um allt þetta hér á landi og einnig um krakka sem þykist vera í skóla þrátt fyrir að hafa ekki komið þangað inn í langan tíma. Þau fara kannski í skólann á morgnana en þess í stað þá bíða þau eftir því að foreldrarnir eru farnir í vinnuna og koma þá heim og færa sig yfir í sýndarveruleikann. Þau vita að þau eru örugg næstu klukkustundirnar því yfirleitt eru foreldrarnir ekki komnir heim aftur fyrr en löngu eftir að skóladegi lýkur. Svo er hægt að falsa einkunnaspjöld svo foreldrarnir eru grunlausir um hvað er í gangi. Það er því mjög mikilvægt að foreldrarnir séu meðvitaðir um ábyrgð sína og hvað börn þeirra eru að gera þegar þau sjá ekki til,“ segir Eyjólfur.