Íhuga inntökupróf í Versló að ári

Stjórnendur Verslunarskóla Íslands vilja fara aðrar leiðir við val á …
Stjórnendur Verslunarskóla Íslands vilja fara aðrar leiðir við val á nemendum næsta vor. Árni Sæberg

Verslunarskóli Íslands mun hugsanlega nota inntökupróf þegar nemendur verða teknir inn í skólann að ári.

Margir svekktir foreldrar nemenda sem komust ekki inn í skólann hafa haft samband við skólann en á þriðjudag lágu niðurstöður um skólavist nýnema í framhaldsskólum næsta haust fyrir. Skólinn hafnaði 60 nemendum með 9,0 eða hærra í meðaleinkunn í ár.

Samræmd próf hafa ekki verið lögð fyrir nemendur í 10. bekk frá árinu 2008. Í kjölfarið hafa meðaleinkunnir nemenda sem útskrifast úr grunnskólum farið hækkandi með hverju árinu.

Hafa pláss fyrir fleiri nemendur

„Það er ótrúlegur fjöldi nemenda sem er hafnað í ár, nemendur sem undanfarin ár hefðu alltaf komist inn,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri skólans. Hann hefur tekið á móti fjölda símtala og tölvupósta frá svekktum og sárum foreldrum nemenda sem ekki komust inn í skólann í ár frá því að niðurstöður lágu fyrir á þriðjudag. 

Aðspurður segir hann ekkert hægt að gera fyrir þá nemendur sem ekki fengu skólavist í ár. „Skólinn er einfaldlega fullur. Það þurfa einhverjir að detta út og afþakka pláss svo hægt sé að taka fleiri inn,“ segir Ingi. Færri nemendur voru teknir inn í skólann í ár, jafnvel þó að skólinn hafi rými fyrir. „Þessu er bara handstýrt af ráðuneytinu.“

Illa gekk að halda í kynjahlutföllin

Reynt er að halda kynjahlutföllunum jöfnum innan skólans. Ingi segir það aftur á móti hafa gengið mjög illa í ár þar sem stúlkurnar sem sóttu um skólavist hafi verið með miklu hærri einkunnir en drengirnir. Þess má einnig get að hluti þeirra nemenda sem fær skólavist er ekki valinn á grundvelli einkunna, heldur annarra þátta.

„Það getur vel verið að einhver stelpa hafi komist inn sem er með lægri einkunn en strákur, þó svo að það sé meira í hina áttina. Það er ekki mikið um það,“ segir Ingi.

Stærsti hluti nemenda er tekinn inn eftir einkunnum. Þá er einnig litið til annarra þátta, svo sem kynjahlutfalla, sögu nemenda og veikinda, svo dæmi séu nefnd.  Nánast allir umsækjendurnir tóku fram að þeir hefðu tekið þátt í íþróttum, leiklist eða öðru félagslífi. „Þetta eru svo ofsalega duglegir og flottir krakkar að það er sorglegt að þurfa að segja nei,“ segir Ingi.

Frekar inntökupróf en einkunnir að ári

Ingi segir að samræmd próf séu vissulega sanngjarn mælikvarði til velja nemendur inn í framhaldsskóla. Hann segist aftur á móti gera sér grein fyrir því að grunnskólinn sé ekki hrifinn af samræmdum prófum.

„Mér skilst að það hafi verið svo stýrandi á sínum tíma, ég skil það mjög vel að grunnskólinn vilji þetta ekki. Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég reikna ekki með því að við munum fara svona stíft eftir einkunnum eftir ár, ég hef viðrað þá skoðun að hafa inntökupróf,“ segir Ingi.

Hann sér fyrir sér að nemendur þurfi ekki endilega að ná prófinu til að eiga möguleika á skólavist, heldur verði prófið notað til að raða nemendum.

„Þó að það hafi orðið mikil einkunnaverðbólga eru þetta samt mjög góðir og sterkir námsmenn, en þeir eru kannski ekki alveg svona góðir. Ég kenni grunnskólunum ekki endilega um, heldur þurfum við kannski að endurskoða hvernig við tökum inn í skólann,“ segir Ingi.

Frétt mbl.is: Hafnað með yfir 9 í einkunn

Frétt mbl.is: Versló eftirsóttasti skólinn

Versló er eftirsóttasti skólinn í ár.
Versló er eftirsóttasti skólinn í ár. Verslunarskóli Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert