Þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa frá því síðdegis í dag farið í 3 útköll og eru í því fjórða eins og er. Upp úr klukkan 16:00 barst beiðni um þyrlu vegna vélhjólaslyss á Holtavörðuheiði.
Stuttu eftir flugtak þyrlunnar var beðið um þyrlu vegna bráðaveikinda við Gullfoss og var þyrlunni snúið þangað en áhöfn kölluð út á aðra þyrlu til að fara í slysið á Holtavörðuheiði. Báðar þyrlurnar lentu með sjúklingana um kl. 18:00 við Borgarspítalann.
Frétt mbl.is: Tvö þyrluútköll á örfáum mínútum
Um klukkan 19:40 hafði flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna lítillar, eins hreyfils flugvélar sem var að missa olíuþrýsting um 300 sjómílur suð-vestur af Reykjanesi, með einn mann um borð.
Báðar þyrluvaktir Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út. Önnur fór á þyrlu til móts við flugvélina en hin var í viðbragðstöðu í Reykjavík. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð og björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Sandgerði hélt úr höfn. Jafnframt voru skip og bátar vestur af Reykjanesi kölluð upp og beðin um að vera til taks ef á þyrfti að halda.
Þyrlan og flugvélin mættust um 100 sjómílur vestur af Reykjanesi og fylgdi þyrlan vélinni inn til Keflavíkur þar sem hún lenti um kl. 21:30.
Í beinu framhaldi af því barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um þyrlu frá Fjarskiptamiðstöð Lögreglunnar vegna sjúklings á Suðurlandi og var þyrlan send beint í það útkall.