Ásta Helgadóttir, 25 ára sagnfræðingur, mun taka sæti Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi í haust. Í samtali við mbl.is segist hún mjög spennt fyrir starfinu. Það verði þó afar krefjandi, enda sé að mörgu að huga.
Jón Þór var einn þriggja þingmanna sem náðu kjöri á þing árið 2013. Hann gaf það út á síðasta ári að hann myndi láta af þingmennsku í ár, þegar kjörtímabilið væri hálfnað, og stóð hann við stóru orðin.
Tíðindin komu því ekki á óvart, allra síst Ástu, sem hafði vitað það í um tvö ár að hún myndi taka hans sæti á þinginu nú í haust.
Hún segist hafa undirbúið sig fyrir þingstörfin með því að lesa meðal annars rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. „Ég hef verið að fara yfir það hvað er búið að gera og hvað ekki í eftirmálum bankahrunsins 2008,“ segir hún. Hún bendir þó á að hún hafi, sem varaþingmaður Pírata, sest tvisvar sinnum áður á þing. Því sé þetta ekki alveg nýtt fyrir henni.
„Mér finnst mjög mikilvægt að vinna að betrumbótum í fjármálakerfinu, sem er forsenda fyrir því að við getum átt farsælt og gott þjóðfélag. Mér finnst allt of lítið búið að gerast eftir hrunið,“ segir hún.
Aðspurð segist Ásta ætla að leggja mikla áherslu á höfundarréttarmál og bendir hún í því sambandi á að til standi að taka fyrir frumvarp menntamálaráðherra um breytingar á höfundaréttarlögum á næsta þingi. „Ég mun taka virkan þátt í þeirri umræðu,“ segir hún og bætir við að hún hafi unnið mikið að höfundarréttarmálum innan Evrópusambandsins. Hún hefur meðal annars starfað á Evrópuþinginu í Brussel og unnið fyrir Evrópuþingkonuna Ameliu Andersdotter.
Ásta mun taka sæti í nefndunum hans Jóns Þórs og segir hún aðalnefndina vera umhverfis- og samgöngunefnd. „Ég þarf að skoða hvað er í gangi og hvað er hægt að gera þar. Nefndin fjallar um öll fjarskiptamál, síma, internet og póst, og mun ég því leggja áherslu á þau.“
Píratar hafa talað skýrlega fyrir ýmiss konar lýðræðisumbótum, til að mynda beinu lýðræði, og eins breytingum á stjórnarskránni. Ásta segir deginum ljósara að margt þurfi að laga þegar kemur að þessum málum. „Ekki síst innan sjálfs þingsins til þess að gera það skilvirkara. Við þurfum að vinna að því. Ég tel að við þurfum að skýra út hvernig kerfið virkar til að geta fundið út hvernig við getum látið það virka betur. Eins verðum við að finna út hvað virkar ekki, því það er ansi margt sem virkar ekkert sérstaklega vel.“
Ásta segist hafa fengið áhuga á stjórnmálum, eða í það minnsta gefið þeim meiri gaum, eftir að hafa búið um stutt skeið í Íran. „Þar var mikil ritskoðun og ekki mikið kvenfrelsi og eftir þá dvöl fannst mér ég þurfa að beita mér,“ segir hún.
Píratar hafi ávallt talað opinskátt um ritskoðun, sérstaklega í umræðum um svonefnt klámfrumvarp Ögmundar Jónassonar, internetið og önnur mál sem séu mjög mikilvæg á tímum sem þessum. Flokkurinn hafi reynst henni góður vettvangur til að ræða þessi mál.
Eins og kunnugt er hafa Píratar notið gríðarmikils og sívaxandi fylgis á undanförnum mánuðum. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR njóta Píratar næstum tíu prósentustiga meiri stuðnings en Sjálfstæðisflokkurinn, sem nýtur næstmests fylgis. Fylgi Pírata mældist 33,2%, mest allra flokka á Íslandi.
Spurð um þetta mikla fylgi bendir Ásta á að fólk sé mjög óánægt og því sé ekki ólíklegt að stór hluti fylgisins, jafnvel 10%, sé hreint óánægjufylgi. „Við vitum ekki hversu margir munu síðan láta slag standa og kjósa Pírata í næstu þingkosningum.
Píratar hafa verið að vinna vel. Jón Þór, Helgi Hrafn og Birgitta hafa öll staðið sig með prýði og einnig Halldór Auðar í borgarstjórninni. Ég held að sú vinna sé að skila sér - að vera heiðarleg, mannleg og aðgengileg. Það virðist vera lykillinn.“
Frétt mbl.is: Jón Þór hættir á þingi