HIV fylgir þöggun og smán

Jón segir málið grafalvarlegt.
Jón segir málið grafalvarlegt. mbl.is/Sigurgeir

„Ef maðurinn er ekki á lyfjum og er vísvitandi að útsetja fólki fyrir mögulegri smithættu þá er það að sjálfsögðu grafalvarlegt mál,“ segir Jón Sveinsson, formaður HIV-Ísland. Lögreglan hneppti í dag karlmann af erlendum uppruna í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hafi smitað konur af HIV en ekki er ljóst hvort maðurinn hafi vitað af því að hann sé smitaður.

Jón tekur fram að fólk sem smitað er af HIV smitar ekki aðra ef það tekur lyfin sín.

 „Ef að rétt reynist þá er einn hlutur að útsetja fólki fyrir smiti og annar að smita það. Þessi innflytjandi hefur farið í rannsókn þegar hann kom til landsins, eins og allir innflytjendur, og þá hefur smit hans komið í ljós. Ef sjúkdómurinn hefur verið þessi eðlis var honum boðið að fara á lyfjagjöf. Þegar fólk tekur lyfin sín smitar það aðra ekki af HIV,“ segir Jón.

Jón segir umræddan einstakling væntanlega undir talsverðri pressu og að við vitum ekki hverjar aðstæður hans hafi verið í heimalandinu. „Margir frá öðrum löndum eru undir pressu að segja ekki frá sínu smiti. Það getur verið ein af ástæðum þess að þeir einstaklingar sem hann hefur sofið hjá hafi ekki fengið upplýsingar um smit. Annars staðar í heiminum er meiri skömm og þöggun í kringum þessi mál.“

Hann segir fólk auðvitað slegið yfir fréttum dagsins. „Fólk er dálítið slegið yfir þessu ef satt reynist. Það er grafalvarlegt ef þetta er gert af viljandi hug og að smit hafi í raun átt sér stað.

Prófin geta tekið mislangan tíma

Aðspurður segir Jón að mislangan tíma geti verið að fá niðurstöður HIV prófa allt eftir því hversu langt er liðið frá mögulegu smiti. „Það getur greinst nokkrum mánuðum eftir möguleg kynmök og þetta getur leynst dálítið lengi. Þú getur farið í prófið sem kemur neikvætt út og svo ferðu aftur í sama próf út einhverjum vikum seinna þá kemur það jákvætt. Það geta því liðið einhverjar vikur á milli, þú greinist kannski ekki strax.

Segir Jón að bið fólks eftir niðurstöðum úr HIV prófi sé skiljanlega erfið. „Óvissa er alltaf erfið. Það fylgir þessu smán í samfélaginu. Bæði skammast einstaklingarnir sín sjálfir og það er einnig einhver smán í þjóðfélaginu. Við hjá HIV-félaginu höfum unnið að því að fræða fólk en sjúkdómurinn er umlukinn histeríu og smán.“

„Eins og að vera með sykursýki“

Að lokum spyr blaðamaður Jón hvað það þýði í dag að lifa sem HIV smitaður einstaklingur. 

„Núna er þetta eins og hver annar krónískur sjúkdómur sem þú lifir með. Ef fólk tekur lyfin sín þá finnur það engar breytingar dags daglega. Samt fylgir þessu smán, fólk upplifir pressu út af þessari þöggun og þögn sem umlykur sjúkdóminn.“

Hann segir HIV alltaf hafa haft ákveðinn stimpil. „Sama hvort smitleiðin er í gegnum kynlíf eða eiturlyf þá er þetta umræðuefni sem fólk forðast; smitleiðirnar. Sjúklingarnir sjálfir eru oft manna heilbrigðastir.“

Jón segir lífið með sjúkdómnum hafa verið erfiðara áður en að það sé vissulega enn mjög erfitt á ýmsum stöðum í heiminum. „Þar sem peningar eru til staðar til að kosta lyfjameðferð þá er þetta bara eins og að vera með sykursýki. Sykursjúkur einstaklingur sprautar sig og lifir eðlilegu lífi og það er eins með HIV smitaða. Fólk tekur bara töfluna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert