Franski ferðamaðurinn sem var týndur á Hornströndum fannst rétt eftir klukkan tíu í kvöld. Á svæðinu var lítið skyggni sem olli líklega villu mannsins.
Hann var ágætlega á sig kominn og afþakkaði Snickers sem björgunarmenn buðu honum. Manninum verður fylgt niður.
Yfir fjörtíu björgunarsveitamenn leituðu að honum í kvöld. Það náðist illa í síma mannsins og var því gripið til þess að láta hann blása í flautu sem hann var með á tíu mínútna fresti.
Maðurinn hafði samband við Neyðarlínuna fyrr í kvöld og sagðist villtur upp af Lónafirði á milli Jökulfjarða og Hornstranda. Björgunarsveitir voru kallaðar út á sjöunda tímanum.
Frétt mbl.is: Flautar á 10 mínútna fresti
Frétt mbl.is: Týndur ferðamaður á Hornströndum