Þrír dæmdir í einangrun

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag þrjá nánast samhljóða úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á laugardaginn, þar sem þrír erlendir sakborningar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafðist gæsluvarðhaldsins yfir einstaklingunum, sem er gefið að sök að hafa pantað ýmsan varning á stolin greiðslukort, og látið senda hann á dvalarstað þeirra hér á landi í tímabundnu leiguhúsnæði, sem þeir leigja gegnum ótilgreinda vefsíðu.Við húsleit hafi fundist ýmsir óáteknir munir, sem búið var að pakka ofan í ferðatösku.

Í úrskurðum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, segir meðal annars að lögregla muni þurfa að leita aðstoðar erlendra löggæslustofnanna og eftir atvikum greiðsluþjónustufyrirtækja til að upplýsa málið og til að hafa uppi á hugsanlegum samverkamönnum sakborninga.

Þar segir einnig að ætla megi að ef sakborningarnir verði látnir lausir muni þeir eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband hverjir við málinu og ætlaða samverkamenn erlendis og jafnframt eyða gögnum sem vistuð séu á rafrænu formi.

Einstaklingunum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 28. ágúst og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Hinir dæmdu eiga engin tengsl við landið og hafa dvalið hér á landi í tímabundnu leiguhúsnæði, sem dómstólar telja réttlæta gæsluvarðhaldið til að koma í veg fyrir að sakborningar flýi úr landi eða torveldi rannsóknina, sem er á frumstigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert