„Það var rosalega gott veður um daginn þegar hitinn fór upp í tuttugu gráður og allir héldu að sumarið væri að koma. Síðan snerist þetta heldur betur við og er búið að vera algjört úrhelli. Í gær varð mikil aukning á úrkomunni og núna er algjört skýfall. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Þórir Kristinn Þórisson, eigandi gistihússins The Herring House á Siglufirði.
Vatn blandað mold og leðju flæðir niður hlíðina í bænum og hefur vatn flætt inn í nokkur hús í bænum. Ekkert lát er á úrkominni. Spáð er mikilli rigningu víða á norðanverðu landinu fram á laugardag. Veðurstofa Íslands varar á vef sínum við aukinni hættu á skriðuföllum og er bent á að gæta beri varúðar við vatnsföll.
Frétt mbl.is: Aldrei séð aðra eins úrkomu
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni lokar fjöldi aurskriða Siglufjarðarvegi og er vegurinn ófær. Hið sama gildir um Strandaveg á norðanverðum Vestfjörðum. Enn er ausandi rigning á báðum svæðum og er ekkert lát á úrkomunni. Vegirnir verða áfram lokaðir og verður staðan metin í fyrramálið.
Þórir ók um bæinn eftir hádegi og segir drullugt vatn flæða niður hlíðina í gegnum bæinn. Eins og sjá má á myndum og myndskeiði sem fylgja fréttinni renna brúnir taumar af drullugu vatni í gegnum grasi gróna garða bæjarins og fossa yfir göturnar.
„Ég er að horfa á Hvanneyrarána sem kemur niður hjá gömlu rafstöðinni og hún er búin að taka í sundur Hólaveg og flæðir hérna niður. Hún er komin upp fyrir brúna sem er við Fossveg og flæðir yfir hann. Það er spurning hvort hann fari jafnvel líka,“ segir Þórir. Göturnar, sem eru ofarlega í bænum, eru lokaðar sem stendur.
Að sögn Þóris virðist frárennsliskerfi bæjarins ekki anna úrkomunni og flæðir upp úr niðurföllum. „Það virðast allar lagnir í fráveitunni vera stíflaðar eða fullar,“ bætir Þórir við og segist ekki geta séð að draga sé úr úrkomunni.
Eitthvað er um að íbúar bæjarins séu á ferli í bænum að kanna aðstæður. Þá er nokkur fjöldi fólks að reyna að bjarga því sem bjargað verður að sögn Þóris en vatn hefur flætt inn í nokkur hús í bænum.
Þá reyna íbúar einnig að koma í veg fyrir að eigur þeirra fljóti í burt í vatnsflaumnum sem streymir niður hlíðina. „Við vorum að keyra eftir einni götu og þá kom inniskór fljótandi yfir götuna,“ segir Þórir.
Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að á Siglufjarðarveg hafi fallið fjöldi aurskriða, misstórar en margar þeirra hafa farið yfir veginn. Frá Siglufirði og að göngum hafa fallið þrjú flóð og er eitt sýnu stærst eða um 2000 m3 og reikna má með að þykktin sé um 1,5 metrar, líkt og segir í fréttinni.
Vestan við Strákagöng hafa fallið mörg flóð misstór og í Mánárskriðum eru nokkrir steinar inni á vegi. Við Herkonugil féllu tvö flóð ekki mjög stór. Við Sauðanes féll stórt flóð sem skemmdi heimreiðin að Sauðanesi, síðan féllu flóð miðja vegu milli Sauðanes og Strákaganga töluvert stór.
Í gærkvöldi var gífurleg úrkoma á svæðinu og féllu skriðurnar trúlega um miðnættið. Ennþá er töluverð úrkoma og upplýsti veðurstofan að reikna mætti með mikilli úrkomu alveg til hádegis á morgun. Staðan verður metin í fyrramálið og ekkert verður átt við hreinsun fyrr en þá, segir í frétt Vegagerðarinnar.