Aldrei séð aðra eins úrkomu

Hér má sjá Hvanneyrará á Siglufirði. Myndin var tekin rétt …
Hér má sjá Hvanneyrará á Siglufirði. Myndin var tekin rétt fyrir hádegi í dag. ljósmynd/Hilmar M. Gunnarsson

Gífurlega mikið hefur rignt á Ströndum á norðanverðum Vestfjörðum í nótt og í morgun. Vegir eru víða lokaðir en margar skriður hafa fallið og ár hafa flætt yfir bakka sína. Á Litlu-Ávík á Ströndum mældist úr koman 74,4 mm frá kl. 18 í gærkvöldi til kl. 9 í morgun. Veðurathugunarmaður segist aldrei hafa séð aðra eins úrkomu á svæðinu. Íbúi á Finnbogastöðum tíndi grjót úr veginum við Urðarfjall í gær til að komast ferðar sinnar.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að vegurinn norðan Bjarnafjarðar á Ströndum sé lokaður vegna skriðufalla og vatnavaxta. Að sögn Sverris Guðmundssonar, starfsmanns í þjónustumiðstöð Vegagerðarinnar á Hólmavík, bíða menn nú átekta eftir að dragi úr úrkomunni en ekkert sé hægt að gera sem stendur til að koma samgöngum í samt horf.

Frétt mbl.is: Lokað vegna skriðufalla

Vitað er að vegurinn um Kaldbaksvík er í sundur en starfsmenn Vegagerðarinnar komust þangað í morgun. Stórar skriður hafa fallið í Kjörvogshlíð í Reykjafirði og einnig í Hvalvík í Trékyllisvík. Ekki er vitað á hversu mörgum stöðum vegir eru í sundur vegna skriða og vatnavaxta en hafist verður handa við viðgerðir um leið og aðstæður leyfa.

„Þetta eru gífurlegir vatnavextir“

Jón Guðbjörn Guðjónsson, vitavörður og veðurathugarmaður á Litlu-Ávík á Ströndum, segist aldrei hafa séð aðra eins úrkomu og hefur fallið á svæðinu síðustu klukkustundir. 74,4 mm mældust frá kl. 18 í gær til kl. 9 í morgun. Ár hafa flætt yfir bakka sína, skriður hafa fallið og þá eru vegir víða í sundur.  

Jón Guðbjörn ók um sveitina í morgun og komst ekki frá Litlu-Ávík fram í Trékyllisvík. „Vegurinn er búin að vera ófær norður í Árneshrepp frá Bjarnarfirði frá því í gær og er það enn. Það er örugglega allt í sundur, þetta eru gífurlegir vatnavextir,“ segir Jón Guðbjörn í samtali við mbl.is.

„Ég hef aldrei vitað aðra eins úrkomu, mest hafa mælst hér innan við 40 mm,“ segir hann. Nokkuð hefur rignt á svæðinu síðustu daga en þó ekkert í líkingu við það úrkomuna sem hefur fallið í nótt og í morgun. „Það var ofsa rigning í morgun og allt komið á flot, ég varð að vaða út að úrkomumælinum þegar ég tók veðrið klukkan sex í morgun,“ segir Jón Guðbjörn en draga á úr úrkomu um hádegisbilið.

Tíndi grjót úr veginum og hélt för sinni áfram

Linda Guðmundsdóttir, útibússtjóri í Kaupfélaginu í Norðurfirði og íbúi á Finnbogastöðum í Árneshreppi, segir í samtali við mbl.is að allt sé á floti í sveitinni. „Það er búið að rigna í allt sumar en ekki alveg svona mikið. Það falla alltaf skriður í fjöllunum þegar það er svona blautt. Þetta er í rauninni ekkert fréttnæmt, nema að þetta er ofsalega mikið, mun meira en venjulega,“ segir Linda.

Linda ók eftir veginum um Urðarfjall í gærkvöldi og segist hún hafa stöðvað bílinn nokkrum sinnum á leiðinni og tínt grjót út veginum svo hún gæti haldið för sinni áfram. Þá féll einnig lítil aurskriða undir bílinn. „Það var ekki gáfulegt hjá mér að fara þarna,“ segir hún.

„Það er allt lokað núna og ég er ekki á leið til vinnu. Íbúar hreppsins eru lokaðir inni og enginn kemst til okkar,“ segir Linda og bætir við að einnig sé hægt að koma á milli allra bæja í hreppnum. Sjálf kemst hún á næsta bæ en ekki mikið lengra. „Það eru aurskriður hingað og þangað, grjóthrun og stórar skriður.“

ljósmynd/Hilmar M. Gunnarsson
Starfsmenn frá Vegagerðinni eru á vettvangi.
Starfsmenn frá Vegagerðinni eru á vettvangi. ljósmynd/Hilmar M. Gunnarsson
Árnesá er orðin að gruggugu fljóti. Myndin var tekin í …
Árnesá er orðin að gruggugu fljóti. Myndin var tekin í gær og er áin orðin enn vatnsmeiri að sögn Lindu, íbúa á Finnbogastöðum. Ljósmynd/Linda Guðmundsdóttir
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína.
Ár hafa víða flætt yfir bakka sína. Ljósmynd/Linda Guðmundsdóttir
Linda ók eftir veginum um Urðarfjall í gærkvöldi og féll …
Linda ók eftir veginum um Urðarfjall í gærkvöldi og féll meðal annars lítil aurskriða á bílinn. Ljósmynd/Linda Guðmundsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert