Millitekjufólk hagnist helst

Rástöfunartekjur millitekjuhópa eiga sérstaklega að aukast við skattkerfisbreytingar næstu tveggja …
Rástöfunartekjur millitekjuhópa eiga sérstaklega að aukast við skattkerfisbreytingar næstu tveggja ára. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu eiga að leiða til hækkunar ráðstöfunartekna  allra tekjuhópa en þó sérstaklega millitekjuhópa, að því er kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016. Skattbyrðin lækkar mest fyrir þá sem eru með 675-700 þúsund krónur í skattstofn, eða um 1,7%.

Þrjú þrep eru nú í tekjuskatti einstaklinga en þeim verður fækkað niður í tvö í áföngum fram til ársins 2017. Fyrsti áfanginn kemur til framkvæmda 1. janúar 2016 en þá lækkar lægsta þrepið úr 22,86% í 22,68% eða um 0,18 prósentustig. Skattþrep tvö lækkar um 1,4 prósentustig úr 25,3% í 23,9%. Þriðja þrepið verður óbreytt í 31,8% en það verður síðan að efra af tveimur skattþrepum.

Árið 2016 verða efri þrepamörkin jafnframt lækkuð úr um 836 þúsund í um 770 þúsund krónur á mánuði. Árið 2017, verða mörkin 700 þúsund krónur á mánuði á milli skattþrepanna tveggja.

Milliskattþrepið fellur út í síðari áfanga breytinganna árið 2017. Þá lækkar lægsta þrepið niður í 22,50% en efra þrepið verður áfram 31,8%. Áætlað er að hvor áfangi lækki tekjur ríkissjóðs um fimm milljarða króna eða allt að ellefu milljarða samanlagt þegar breytingin verður að fullu komin til framkvæmda.

Lækka vask á áfengi en hækka áfengisgjald

Ýmsar breytingar aðrar eru boðaðar á skattkerfinu. Þannig er gert ráð fyrir að skattskyldur hluti tekna af útleigu íbúðarhúsnæðis sem nú er 70% lækki í 50%. Þar með mun skattbyrði leigutekna lækka úr 14% í 10%. Þetta sagt liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við almennan leigumarkað með það að markmiði að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.

Þá verður leigubílaakstur sem fram að þessu hefur verið undanskilinn virðisaukaskatti skattskyldur. Samkeppnisleg rök eru sögð fyrir því að leigubílar verði ekki undanskyldir því að fólksflutningar verði skattskyldir við áramót eins og áður hefur verið ákveðið.

Áfengi verður fært úr almennu þrepi virðisaukaskatt í neðra þrepið. Það kemur þó niður nánast óbreytt fyrir tekjur ríkisins þar sem að áfengisgjald verður hækkað samhliða og á verð einstakra áfengistegunda að raskast eins lítið og mögulegt er. Með þessu á að gera virðisaukaskattskil veitingahúsarekstrar einfaldari og minnka tækifæri og hvata til undanskota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert