Framlög ríkissjóðs til kirkjumála hækka um tæpar 410 milljónir á milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016. Sóknargjöld hækka um 9,8% eða um 276 milljónir króna. Hækkun sóknargjalda er rökstudd með fyrri niðurskurði sem hafi verið umfram meðaltal til annarra ríkisstofnana.
Þjóðkirkjan fær tæpa 1,6 milljarða króna af fjárlögum ríkisins á næsta ári samkvæmt frumvarpinu. Það er hækkun um 4,8% á milli ára. Auk þess hækka framlög til Kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna sem aðeins þjóðkirkjan nýtur um 9,1% frá þessu ári.
Sóknargjöld renna úr ríkissjóði til trú- og lífsskoðunarfélaga. Framlag ríkisins undir þeim útgjaldalið verður 2.453,8 milljónir króna á næsta ári. Það er hækkun um 276 milljónir króna eða 9,8% frá fjárlagafrumvarpi síðasta árs.
Hækkunin er sögð skýrast af 165,1 milljón króna hækkun til að vega á móti hluta aðhaldskrafna á tímabilinu 2009 til 2012 á þeim fjárlagaliðum sem sóknargjöldin reiknast á. Sú tillaga tekur mið af niðurstöðu starfshóps innanríkisráðherra sem taldi að sóknargjöld og framlög sem byggja á fjárhæð þess hafi sætt skerðingum umfram meðaltal þeirra stofnana sem heyra undir innanríkisráðuneytið.
Þá er gert ráð fyrir að tímabundið framlag sem Alþingi veitti til sóknargjalda í fjárlögum 2015 verði gert varanlegt. Það nam 50 milljónum króna.
Miðað við þetta er gert ráð fyrir því að sóknargjöld sem trú- og lífsskoðunarfélög fá í framlög frá ríkinu verði 898 krónur á mánuði árið 2016 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Það er hækkun um 9% frá yfirstandandi ári.