„Mér finnst eins og hér sé spurt: Hvers vegna er það ekki þannig þegar öllum gengur betur og laun hækka og kaupmáttur vex, eignastaðan lagast og skuldir lækka, hvers vegna hækkum við þá ekki líka bæturnar?“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, sem spurði hvers vegna barnabætur fólks færu að skerðast við 200 þúsund króna mánaðartekjur. Sagði hann að það hefði aldrei verið hugsunin að barnabætur væru aðeins fyrir þá sem hefðu það verst. Gagnrýndi hann einnig fyrirkomulagið á úthlutun vaxtabóta.
Bjarni sagði að 10 milljarðar hefðu verið í barnabætur árlega undanfarin ár. Síðasta breyting sem núverandi ríkisstjórn hafi gert varðandi réttindi til barnabóta hafi snúið að því að færa rétt frá þeim sem væru í bestri stöðu til þeirra sem hefðu lægstu launin. Markmið ríkisstjórnarinnar væri að taka það sem færi í barnabætur og koma því í meira mæli til þeirra sem væru lægst í launastiganum. Það gæti aldrei verið sjálfstætt markmið að koma út ákveðinni fjárhæð. Ef staða fólks batnaði væri ekki nema eðlilegt að ríkið þyrfti að verja eitthvað minna fjármagni til þess að lyfta undir með fólki.