Upprunasvæðið skiptir máli

Það virðist skipta landsmenn töluverðu máli hvaðan innflytjendur koma.
Það virðist skipta landsmenn töluverðu máli hvaðan innflytjendur koma. AFP

Um 72% landsmanna eru hlynntir því að innflytjendur frá Vestur- og Norður-Evrópu setjist að á Íslandi en aðeins 43% hugnast að innflytjendur frá Mið-Austurlöndum festi hér rætur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum Maskínu um afstöðu Íslendinga til innflytjenda.

Könnunin fór fram dagana 4.-15. september og var lögð fyrir slembiúrtak úr Þjóðskrá, en svarendur voru 747. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.

Í könnunni var einnig spurt að því hvort fólk væri andvígt því að innflytjendur frá ákveðnum heimshlutum settust hér að. Það vekur athygli að aðeins 5% Íslendinga sögðust andvígir því að fólk frá Vestur- og Norður-Evrópu flytti hingað, en 34% voru mótfallnir því að bjóða fólk frá Mið-Austurlöndum velkomið.

Graf/Maskína
Graf/Maskína

Þegar viðhorf eru greind eftir breytum á borð við kyn og stjórnmálaskoðanir, kemur í ljós að 40,6% karla voru andvígir því að fólk frá Mið-Austurlöndum settist hér að, en 27,4% kvenna. Þá reyndust 56,9% kjósenda Sjálfstæðisflokksins andvígir aðflutningi einstaklinga frá Mið-Austurlöndum, 55,8% kjósenda Framsóknarflokksins, 30,7% kjósenda Bjartrar framtíðar, 26,4 kjósenda Pírata, 22,5 kjósenda Samfylkingar og 16,5% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Könnunin leiddi einnig í ljós að 26% landsmanna virðast á móti aðflutningi fólks frá Afríku, en þar reyndist einnig nokkur munur eftir stjórnmálaskoðunum. 51,1% kjósenda Framsóknarflokksins reyndist t.d. andvígur því að fólk frá Afríku settist hér að, en aðeins 9,1% kjósenda VG.

Frétt mbl.is: Meirihluti hlynntur móttöku flóttafólks

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert