„Læknaráð Landspítala lýsir enn og aftur yfir vonbrigðum með skilningsleysi fjárveitingarvaldsins á starfsemi Landspítalans. Stjórn læknaráðs telur að hlutur Landspítalans í fjárlagafrumvarpi fyrir 2016 dugi ekki til að halda í horfinu miðað við verðlags- og launaþróun og vanrækslu undanfarinna ára. Fullyrðingar um aukin framlög standast ekki skoðun þegar búið er að taka tillit til vísitölubreytinga og ekkert tillit er tekið til vaxandi eftirspurnar eftir þjónustu.“
Þetta kemur fram í ályktun læknaráðsins.
Læknaráðið skorar á Alþingi Íslendinga að endurskoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 „með það að leiðarljósi að tryggja Landspítalanum nauðsynlega fjárveitingu til að geta hafið uppbyggingarskeið sem stuðlar að framþróun starfseminnar.“
Læknaráðið leggur áherslu á að batnandi staða ríkissjóðs nýtist til uppbyggingar á Landspítala eins og þjóðin hefur einhuga lýst yfir að vilji hennar standi til.
Greinargerð læknaráðs Landspítalans með ályktuninni:
Endurreisa þarf grunnstoð íslensks heilbrigðiskerfis sem Landspítalinn er. Það verður ekki gert nema með verulega auknu fjármagni til reksturs spítalans og fyrir nýjum framkvæmdum. Nú er komið að skuldadögum. Ekki er nægilegt að halda í horfinu heldur þarf verulega innspýtingu af fjármagni til að snúa við óheillaþróun undanfarinna ára.
Sérstaka athygli vekur að ekki sjást þess merki að staðið skuli við nýgerða kjarasamninga við heilbrigðisstarfsfólk. Til þess er fjárlagaramminn of naumt skorinn. Læknaráð varar við þessari vegferð og brýnir fyrir stjórnvöldum að standa við gerða samninga án þess að draga frekar saman þjónustu spítalans með tilheyrandi lengingu biðlista á komandi ári. Í forgangi þarf að vera að skapa sátt milli stjórnvalda og starfsstétta spítalans, í stað þess að efna til frekari úlfúðar og sundurlyndis.
Eins og læknaráð Landspítala hefur endurtekið bent á undanfarin ár, er ljóst að staðan á Landspítala eftir langvinnt fjársvelti er algjörlega óásættanleg fyrir sjúklinga og vanáætlanir í fjárveitingum til lyfjamála bitnar harkalega á skjólstæðingum Landspítalans.
Viðhaldi á húsnæði spítalans hefur ekki verið sinnt svo fullnægjandi sé og engin merki í núverandi frumvarpi um að á því verði sú breyting sem nauðsynleg er. Fjárveitingar til þess hluta hafa verið óbreyttar í krónum talið undanfarin ár þrátt fyrir stigvaxandi þörf. Stjórn læknaráðs ítrekar mikilvægi þess að flýta uppbyggingu nýs meðferðarkjarna og rannsóknarhúss og varar við þeirri hættu sem fylgir því að framkvæmdir dragist á langinn og telur útilokað að ná fram frekari hagkvæmni í rekstri fyrr en sameinaði Landspítalinn kemst í notkun.