Harma núning við leigutaka

Reiðstígur við Hvaleyrarvatn.
Reiðstígur við Hvaleyrarvatn. Ágúst H. Bjarnason

„Það er miður að lagning reiðvegar skuli valda uppnámi hjá leigutökum við vatnið sem hafa samning á grundvelli erfðafesturéttar,“ segir Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði. Hún segir reiðleiðina vera lagða samkvæmt aðalskipulagi en ekki sé fyrirliggjandi samningur fyrir girðingunni sem rofin var við lagningu hans.

Fyrri frétt mbl.is um málið.

„Lagning reiðleiðar ofan við Hvaleyrarvatn er í samræmi við auglýst aðalskipulag og framkvæmdin er liður í því að auka þjónustu við íbúa sem í vaxandi mæli njóta einstakrar náttufegurðar sem svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir Helga.

Reiðvegurinn liggur framhjá landspildu sem fjölskylda Ágústar H. Bjarnasonar hefur á erfðafestri leigu en hann lýsti ljótri aðkomu að svæðinu á föstudaginn. Ekki er deilt um að reiðvegurinn liggi um þann skika en rofin var girðing sem komið var fyrir og Ágúst telur í fullu samræmi við leigusamning.

Deilt um ákvæði leigusamnings frá 1954

Textinn sem Ágúst byggir á fylgir lýsingu á lóðamörkum í leigusamningi og er svohljóðandi: „Reynist girðingin ofan við landið ekki nægilega traust vörn, skal leigutaka heimilt að flytja hana upp á melana, þar sem hún megi teljast örugg vörn.“ Síðar í samningnum er jafnframt kveðið á um að skylt sé að girða landið fjárheldri girðingu.

Bærinn hefur ekki tekið undir sjónarhorn leigutaka en Helga lýsir málinu svo: „Lega reiðstígs er í 22 metra fjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt þinglýstum leigusamningi en leigutakar hafa sett girðingu um svæði sem er  um 7,2 hektarar og því ekki í samræmi við gildandi samning.“

Framkvæmd lagningar valdið óþarfa raski

Ágúst hefur þó lýst áhyggjum ekki eingungis af rofi girðingarinnar heldur einnig hvernig staðið var að lagningu stígsins. Hann telur furðu sæta hversu mjög var raskað landi til þess að leggja reiðstíg og gat ekki séð haldbærar skýringar á því hvers vegna bærinn lagði hann ekki framhjá girta svæðinu, sem hann telur hæglega hafa verið mögulegt.

Helga segir engin rök hafa verið fyrir því að breyta stígsstæðinu í aðalskipulagi þar sem Hafnarfjarðarbær sé eigandi að landinu. Breytingar á deili- og aðalskipulagi þurfi að fara í gegnum ákveðið ferli og ekki hafi verið tilefni til þess. Hún sagðist ekki hafa komið á staðinn eftir framkvæmdirnar og gæti því ekki tjáð sig um frágang á svæðinu.

Lóðamörk sjást hér afmörkuð appelsínugulu, afgirta svæðið sem um er …
Lóðamörk sjást hér afmörkuð appelsínugulu, afgirta svæðið sem um er deilt í gulu og reiðvegurinn blá lína. Hvaleyrarvatn er til suðurs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert