Að óbreyttu er útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs verði talsvert betri en gengið var út frá í gildandi fjárlögum. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem sett var inn á vef Alþingis í gær.
Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að heildartekjur aukist um 26,4 mia.kr. frá áætlun fjárlaga og að heildarfjárheimildir vegna útgjalda hækki um 9,4 mia.kr. Þannig er áætlað að afgangur á heildarjöfnuði verði 20,6 mia.kr. á árinu 2015 eða 17,1 mia.kr. betri á rekstrargrunni en samkvæmt fjárlögum.
„Stærstur hluti bættrar afkomu frá fjárlögum skýrist af u.þ.b. 15 mia.kr. hærri arðgreiðslum frá fjármálastofnunum en reiknað hafði verið með í forsendum fjárlaga, einkum frá Landsbanka Íslands. Að frátöldum þeim arðgreiðslum er gert ráð fyrir að heildarafkoma yfirstandandi árs verði áþekk og áætlað var í fjárlögum.
Að baki þeirri áætlun standa hins vegar talsverðar veltubreytingar og einnig innbyrðis breytingar á milli ýmissa stærða, bæði á tekju- og útgjaldahliðinni. Vaxtajöfnuður ríkissjóðs batnar um 5 mia.kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins, eða sem nemur 0,2% af VLF. Þar vegast á annars vegar 5,7 mia.kr. lækkun vaxtagjalda, sem skýrist einkum af lægra vaxtastigi á yfirstandandi ári en gert hafði verið ráð fyrir, og hins vegar 0,7 mia.kr. lækkun vaxtatekna,“ segir í frumvarpinu.
Veiking krónunnar vegur á móti niðurgreiðslum á lánum
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárheimildir á gjaldahlið ríkissjóðs aukist 9,4 mia.kr., eða sem nemur 1,4%. Endurmetin áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs gerir ráð fyrir að þau verði 76,8 mia.kr. eða 5,7 mia.kr. lægri en í fjárlögum. Lækkunina má einkum rekja til lægri stýrivaxta á árinu en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum sem hefur einkum áhrif á innlenda fjármögnun ríkissjóðs.
„Þess skal einnig getið að á yfirstandandi ári hafa erlendar skuldir að nokkru marki verið greiddar niður s.s. Avens–skuldabréfið, lán frá Póllandi og skuldabréf í dollurum sem gefið var út árið 2011 en á móti vegur veiking krónunnar þannig að vaxtagjöld af erlendum lánum eru nær óbreytt frá áætlun fjárlaga. Að frádregnum lækkun vaxtagjalda aukast frumgjöld ríkissjóðs um liðlega 15 mia.kr. frá fjárlögum, eða sem nemur 2,6%,“ segir í frumvarpi til fjáraukalaga.
Breytingar á útgjöldum óreglulegra liða nema 5,4 mia.kr. í frumvarpinu. Þar vegur þyngst aukning í fjármagnstekjuskatti sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér, eða 3,4 mia.kr., en sú fjárhæð færist einnig á tekjuhlið og hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Að frádregnum breytingum á óreglulegum liðum nemur aukning frumútgjalda 9,6 mia.kr. eða sem svarar til 1,9% aukningar frá fjárlögum. Það frávik er lítillega hærra en meðaltal sl. sex ára en mun lægra en meðalfrávik áranna 1998–2008.
2,1 milljarður aukalega vegna samnings sérfræðilækna
Helstu útgjaldabreytingar í frumvarpinu eru að öðru leyti þær helstar að reiknað er með 2,1 mia.kr. umframútgjöldum vegna sjúkratrygginga miðað við útgjaldaþróun fyrri hluta þessa árs. Sú aukning skýrist að stærstu leyti af samningi sérfræðilækna sem gerður var í ársbyrjun 2014.
Gengið var út frá því við gerð samningsins og í forsendum fjárlaga að samhliða honum yrði reglugerð um kostnaðarhlutdeild sjúklinga breytt á þann veg að hún yrði sú sama og hafði verið árin þar á undan og að útgjöld ríkissjóðs mundu ekki aukast með tilkomu samningsins. Af því hefur ekki orðið og hefur það í för með sér umframútgjöld sjúkratrygginga og lægri kostnaðarhlutdeild sjúklinga.
Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir auknum framlögum til brýnna framkvæmda á ferðamannastöðum og á vegakerfinu vegna stóraukins ferðamannastraums í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í maí sl. Annars vegar er gert ráð fyrir 1,8 mia.kr. einskiptis framlagi til framkvæmda og viðhalds á leiðum í vegakerfinu sem ferðamenn fara mikið um og hins vegar 850 m.kr. einskiptisframlagi til brýnna framkvæmda á ferðamannastöðum.
1,1 milljarður til Vegagerðar vegna vetrarþjónustu
Einnig er gert ráð fyrir 1,1 mia.kr. framlagi til Vegagerðarinnar vegna vetrarþjónustu umfram fjárheimildir á árinu 2014 og 825 m.kr. framlagi til að bregðast við fjölgun hælisleitenda og móttöku flóttamanna á þessu ári í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar í september sl.
Á móti vegur helst til lækkunar að útgjöld vegna barnabóta eru áætluð 600 m.kr. lægri á yfirstandandi ári en reiknað hafði verið með í fjárlögum. 47 Í köflunum hér á eftir er fjallað ítarlegar um áætlaðar breytingar á tekjum, gjöldum, lánsfjármálum og sjóðstreymi ríkissjóðs miðað við fjárlög 2015 og þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu.