Myndum við búa til RÚV í dag?

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Sjálfstæðisflokkinn alltaf hafa haft ákveðnar efasemdir um umfang Ríkisútvarpsins (RÚV) og að nýbirt skýrsla um starfsemi og rekstur RÚV frá árinu 2007 sýni vel að umfang stofnunarinnar sé „allt of mikið.“

Sagði hún þetta í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun en auk hennar var gestur þáttarins Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

„Ég sé alveg kostina í því að styrkja innlenda dagskrárgerð og að viðhalda tungumálinu en ég er ekki viss um að það eigi heima í einhverri einni stofnun. Minn draumur hefur alltaf verið sá að við værum með litla stofnun, ef þá einhverja, sem væri RÚV og síðan værum við að útdeila fjármagninu hingað og þangað - þar sem menn framleiddu íslenskt efni,“ sagði Hanna Birna og bætti við: „Ég held að íslenska þjóðin ætti aðeins að setjast niður og velta því fyrir sér, ef við værum að búa til samfélag í dag og sætum hér árið 2015, myndum við búa til svona stofnun í kringum rekstur fjölmiðils?“

Helgi Hjörvar segir það hins vegar mikilvægt fyrir samfélagið að „eiga öflugt almannaútvarp“. „Ég held að við ættum frekar að taka þessa umræðu í hina áttina, þ.e. ekki um það hvernig draga megi úr umfangi RÚV heldur frekar spurninguna um það hvernig við getum eflt þennan þátt almennt í fjölmiðluninni. Hvernig við getum styrkt fleiri aðila til að rækta þetta hlutverk, hvort sem er í dagskrárgerð eða í fréttaþjónustu,“ sagði Helgi.

RÚV hefur „hlaupið í vörn“

„Mér finnst svo rangt þegar menn nota einhver orð á borð við „almannaútvarp“ því fyrir mér sit ég í almannaútvarpi. Ég sit núna og tala þar. Og mér finnst þeir fjölmiðlar sem hafa verið að spretta upp hér á Íslandi, bæði svæðis- og landstengdir, vera að hugsa um hagsmuni almennings og flytja jafn hlutlausar fréttir og Ríkisútvarpið,“ sagði Hanna Birna og bætti við: „Og þegar menn segja það athyglisvert við þessa skýrslu hvernig aðrir fjölmiðlar hafa hlaupið af stað - þá finnst mér enn athyglisverðara hvernig RÚV hefur hlaupið í vörn.“

Velti Hanna Birna því næst upp hvort Ríkisútvarpið væri ekki orðin allt of stór stofnun. „Þetta er orðið eitthvert umfang, risastórt hús og ofboðslegur starfsmannafjöldi í staðinn fyrir - og það getum við kannski verið sammála um - að þetta fjármagn færi sem víðast og víðar en einungis inn í eina stofnun.“

Benti Helgi þá á að stjórn Ríkisútvarpsins „hefði sýnt það í verkum sínum“ að hún sé að bregðast við aðhaldskröfum. „Það er verið að draga saman starfsemina í húsinu, leigja út hluta af því, selja lóðina og leita að alls konar skynsamlegum bótum.“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka