90 keppendur á bikarmóti í fitness

Ljósmynd/Gyða Henningsdóttir

Bikarmót IFBB í fitness, vaxtarrækt og módelfitness fór fram nú um helgina. Um níutíu keppendur komu saman á mótinu sem fór fram í Háskólabíói. Keppt var í sex greinum og eftir niðurstöður í einstökum flokkum tókust sigurvegarar á um heildartitil hverrar keppnisgreinar. Ítarlega umfjöllun um mótið ásamt fleiri myndum má finna vef Fitness frétta, fitness.is.

Ljósmynd/Gyða Henningsdóttir

Í módelfitness stóð Aníta Rós Aradóttir uppi sem heildarsigurvegari eftir mjög jafna keppni við Aðalbjörgu Örnu G. Smáradóttur, sem eins og Aníta sigraði sinn flokk. Jafntefli var á milli þeirra tveggja í heildarkeppninni en Aníta stóð uppi sem sigurvegari þegar jafnteflið var útkljáð.

Ljósmynd/Gyða Henningsdóttir

Heildarsigurvegari í fitnessflokkum kvenna varð Sandra Ásgrímsdóttir eftir keppni við þær Sif Garðarsdóttur og Söru Mjöll Sigurðardóttur sem sigruðu einnig sína flokka. Sif Garðarsdóttir er áhugafólki um líkamsrækt vel kunn enda mætti hún nú til keppni eftir tíu ára hlé og stimplaði sig aftur inn með bikarmeistaratitli í sínum flokki.

Eins og áður sagði má finna nánari umfjöllun um mótið og úrslit þess á síðunni fitness.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert