Skólinn er ekki fyrir alla bara suma“

Sigrún Harðardóttir lektor við Háskóla Íslands fjallaði um líðan framhaldsskólanema …
Sigrún Harðardóttir lektor við Háskóla Íslands fjallaði um líðan framhaldsskólanema í erindi sínu á fundi Náum áttum. mbl.is/Golli

Yfir 70% þeirra nemenda sem líður illa þegar þau hefja nám í framhaldsskóla ljúka ekki námi en hlutfallið snýst við þegar kemur að þeim ungmennum sem standa vel að vígi strax við upphaf náms. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Sigrúnar Harðardótt­ur lektors við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands á fundi samtakanna Náum áttum um skóla fyrir alla - eða hvað?. Sigrún fjallaði þar um doktorsritgerð sína „Líðan framhaldsskólanemenda: Um námserfiðleika, áhrifaþætti og ábyrgð samfélags“ 

Brottfallið vandi sem framhaldsskólarnir sitja uppi með

Að hennar sögn er mikið brott­fall úr fram­halds­skól­um vandi sem fram­halds­skól­inn hef­ur setið uppi með þó svo að hann eigi ekki al­farið sök að máli en frá til­komu al­mennr­ar braut­ar í fram­hald­skól­um árið 1999 fjölgaði nem­end­um sem eiga í vanda í framhaldsskólum landsins.

Rannsókn hennar er unnin við Menntaskólann á Egilsstöðum en Sigrún starfaði þar um árabil. Hún segir að hjá ME hafi verið boðið upp á stuðningsúrræði fyrir nemendur með ADHD og þar sé boðið upp á sérstaka námskrá fyrir nem­end­ur sem koma verst und­ir­bún­ir inn í fram­halds­skól­ana (almennar brautir). Nem­end­ur sem hafa kannski fallið á öll­um sam­ræmdu próf­un­um og fengið ein­stak­lings­miðaða kennslu í grunn­skóla sem ekki er boðið upp á í framhaldsskólum. 

 „Þetta er svolítið eins og brautarstöð“

Sigrún segir að það hái framhaldsskólunum, einkum og sér í lagi áfangaskólunum, hversu erfitt er að fylgjast með hverjum og ein­um nem­anda. „Þetta er svolítið eins og brautarstöð,“ segir Sigrún.

Fjölmenni var á fundi samtakanna Náum áttum þar sem umræðuefnið …
Fjölmenni var á fundi samtakanna Náum áttum þar sem umræðuefnið var skólakerfið. mbl.is/Golli

Í rannsókninni skoðaði hún þrjá árganga í í ME, það er nýnema við skólann 2005-2007 með því að leggja sjálfsmatslista fyrir þá og síðan hringdi hún í þá fjóru og hálfu ári síðar og kannaði hvar þeir voru staddir í lífinu. 

Hún segir að þegar hún ræddi við nemendurna sem höfðu hafið nám á öðrum brautum en almennri braut sem var ætluð þeim sem ekki höfðu náð tilskilinni einkunn við lok grunnskólanáms.

Af þeim sem voru hættir námi, 71,5%, komu inn í skólann með slæma líðan. þannig að það er greinilegt að það eru tengsl milli líðanar og námsframvindu í framhaldsskóla. 54% þeirra sem höfðu lokið námi komu inn í skólann með góða líðan og góða færni. 

ADHD er mik­ill vendipunkt­ur - ef nemendur voru með ADHD þá skipti það miklu máli varðandi gengi í skóla. 

Sláandi munur er á milli nemenda sem koma af bóknámsbrautum …
Sláandi munur er á milli nemenda sem koma af bóknámsbrautum og þeirra sem eru á almennum brautum þegar kemur að brottfalli úr framhaldsskólum. Kristinn Ingvarsson

Í erindi Sigrúnar kom fram að 69% þeirra sem eru öðrum braut­um koma inn í skólann með góða líðan og getu á meðan hlutfallið er 46,5% þegar kemur að þeim nemendum sem hófu nám á almennu brautunum þremur. 

Lang­hæst hlut­fall þeirra sem hættu námi komu af al­mennu braut­un­um 1-3. Af 67 nemendum sem hófu nám á náttúrufræðibraut höfðu þrír hætt námi, 10 af þeim 42 sem hófu nám á félagsfræðibraut höfðu hætt námi og fimm af 24 nemendum á málabraut. 

Af nemendum á almennri braut 3 höfðu 8 af þeim 22 sem hófu nám hætt námi. Á almennri braut 2 hófu 58 nemendur nám en fjóru og hálfu ári síðar höfðu 29 hætt námi en 14 lokið námi. Á almennri braut 1 hófu 57 nám og tveir höfðu lokið því fjóru og hálfu ári síðar en 42 höfðu hætt námi. Þrettán voru enn í námi.

Sigrún benti á í erindi sínu á að engu virðist skipta þótt nemendur fari í aðra skóla því 30% fóru í aðra skóla en þeir voru al­veg jafn­mikið að detta út og þeir sem héldu áfram í ME. „Þetta gefur vísbendingu um að þetta gildi al­mennt um fram­halds­skól­ana,“ segir Sigrún.

72% þeirra sem byrjuðu á bók­náms­braut ljúka námi. Við þurf­um ekki að hafa áhyggj­ur af þess­um hópi. Þetta eru krakkar sem geta lært og hætta kannski námi tímabundið en koma inn í skólann aftur því þau vita að þau geta lært. Ég hef meiri áhyggjur af hinum hópnum. Þeim sem gengur illa, dettur út og spurning hvort komi inn aftur,“ segir Sigrún.

Af bóknámsnemum voru 15% enn í námi fjóru og hálfu ári síðar og segir Sigrún að það sé ekki alveg marktækt því ef síðari hluti rannsóknarinnar hefði verið gerð hálfu ári síðar, það er fimm árum eftir að nám hófst, þá hefði hlutfall þeirra sem hefðu lokið námi hækkað mjög. 13% þessara nemenda höfðu hætt námi.

Þrátt fyrir úrræði þá detta þessir nemendur út úr skólakerfinu

Sigrún segir það dap­urt þegar búið er að eyða svona mik­lum tíma og mikilli orku í að reyna að gera eitthvað af viti og búa til einhverjar námsleiðir og stuðning fyrir þessa nemendur, „þá erum við því miður að missa þau flest út. Það er þessa nemenur sem gengur illa í námi,“ segir Sigrún og vísar til þeirra úrræða sem gripið hefur verið til innan framhaldsskólanna við að styðja nemendur sem eiga í erfiðleikum í námi.

Stuðningur foreldra,kennara og vina skiptir miklu máli fyrir framhaldsskólanemendur.
Stuðningur foreldra,kennara og vina skiptir miklu máli fyrir framhaldsskólanemendur. AFP

Þegar horft er á nemendur á almennu brautunum þremur er niðurstaðan sú að 16% höfðu lokið námi fjórum og hálfu ári eftir að þau hófu framhaldsskólanám, 28% voru enn í námi en 56% höfðu hætt í námi.

Stytting náms nýtist ekki þessum krökkum

„Stytt­ing í náms í framahaldsskólum í þrjú ár er úrræði sem ekki er að henta slök­um nem­end­um,“ segir Sigrún og segir það skoðun sína að það sé breyting sem henti þeim nemendum sem held­ur miklu frek­ar þeim sem ekki þarf að hafa áhyggj­ur af og hinum hópnum.

Sigrún segir að komi nem­end­um með námserfiðleika mjög á óvart hvað þeim gekk illa og að þau uppgötvuðu að þau voru ekki eins og önnur börn. Þau töluðu um í viðtölum við Sigrúnu að þau hafi þurft að takast á við skóalsamfélag sem skilgreindi þau sem frávik . Því áherslan var á raskanir þeirra ekki styrkleika þeirra og áhuga þeirra á að leggja sig fram. Þau upplifðu vanlíðan, óréttlæti og reiði yfir því að vera öðruvísi. 

Hún tók dæmi í fyrirlestrinum af ummælum þeirra: „Ég gat ekki lært stafina... heyrði ekki muninn á stöfunum.“ 

„Það er sko hræðilegast í heimi að þurfa að kyngja því að maður þurfi að vera lengur að læra en manneskjan við hliðina á manni og kyngja því að maður er með svaon ekki beint galla heldur svona öðruvísi heila einhvern veginn... maður náttúrulega vill vera eins og hinir og grautfúlt og svekkjandi að vera lengur en aðrir að læra.“

Ósátt við stuðning sem þau fá

Mörg hver voru ekki sátt við þann stuðning sem þau fengu og töldu að þau voru ekki að fá þann stuðning sem þau þurftu á að halda. Að námið væri ekki nægj­an­lega ein­stak­lings­miðað og all­ir með rask­an­ir sett­ir und­ir sama hatt.

„Eina aðstoðin sem ég fékk var að ég var tekin út úr stærðfræðitíma og var látin með einhverjum... einhverjum þú veist manneskjum sem voru miklu verr staddar en ég... það eru allir settir undir sama hatt hvort sem þeir eru með ADHD eða þunglyndi eða hvað var í gangi og... það er ekki sniðugt.“

Stuðningur foreldra og kennara skiptir mestu máli

Eitt er það sem allir viðmælendur nefndu að sögn Sigrúnar en það er stuðning­ur for­eldr­a. Það hafi í raun skorið út um hvort þau gátu klárað námið. Að þau sem áttu for­eldra sem studdu þau til náms gátu lokið námi því þau fengu hvatn­ingu sem þau þurftu á að halda. Eins nefndu einhver að kennari sem hafi trú á þeim skipti sköpum ef heimilið bregst og eins góðir vinir.

„Hann var svona þannig kennari sem vildi hjálpa mér og lagði aukalega á sig til þess að kenna mér og sýndi áhuga á því að ég næði árangri. Hann sagði líka stundum „já flott hjá þér“ og „ég veit að þú getur þetta“ og það fannst mér hvetjandi.“

Er hugsi yfir öllum greiningunum 

Sigrún segir að það sé niðurstaða rannsóknarinnar að skólinn er ekki fyr­ir alla held­ur bara suma.

Það þurfi að breyta vinnu­lagi inn­an skól­anna - erum búin að vinna út frá lækn­is­fræðileg­um hugs­un­ar­hætti í marga áratugi - grein­ingarpakk­ar og sér­kennsla virðist ekki duga til og skila nægjanlegum árangri.

Hún segist hugsi yfir grein­ing­ar­mál­um hér á Íslandi þar sem grein­ing­um og rösk­un­um fjölgar hratt og ekkert lát virðist vera á því. Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna sérkennslu nemur tveimur milljörðum króna á ári. 

Að sögn Helga Gíslasonar sérkennslufulltrúa á skólaskrifstofu Hafnarfjarðar fer um 30% af fjármagni því sem varið er til skólamála í sérkennslu í sveitarfélaginu.

Sigrún segir að það þurfi að skýra al­mennt hlut­verk fram­halds­skóla sem ennþá einbeiti sér að því að undirbúa fólk undir háskólanám. „Það þurfi að skil­greina bet­ur hlut­verk hans í þessu upp­eldi og þroska svo ungmenni geti tekist á við lífið að loknu námi, segir Sigrún og bendir á að það sé mjög mik­il­vægt að opna umræðu í þjóðfélag­inu um þá sem eiga í erfiðleik­um með nám og ábyrgð sam­fé­lags­ins í þeim efn­um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert