Líkir gagnrýni við andlegt ofbeldi

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/RAX

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 sótt að fjárlaganefnd „úr öllum áttum“ nú þegar verið væri að ákveða fjárveitingar til fjárlagaliða. Sakar hún meðal annars forstjóra Landspítala um „andlegt ofbeldi“ en í forstjórapistli sínum gagnrýnir hann vinnu fjárlaganefndar.  

Einn þeirra sem gert hefur vinnu fjárlaganefndar Alþingis að umtalsefni sínu nýverið er Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, en síðastliðinn föstudag lýsti hann yfir vonbrigðum sínum með vinnu nefndarinnar í pistli sínum.

„Fram­koma for­ystu fjár­laga­nefnd­ar og skiln­ings­leysið á þörf­um þeirr­ar grunnþjón­ustu fyr­ir al­menn­ing sem sjúkra­húsið veit­ir olli mér von­brigðum. Von­brigðum í ljósi mik­il­væg­is og um­fangs mála­flokks­ins og þess skýra vilja þjóðar­inn­ar sem kem­ur fram í skoðana­könn­un eft­ir skoðana­könn­un; að for­gangsraða eigi í þágu heil­brigðisþjón­ust­unn­ar um­fram annað,“ sagði Páll í forstjórapistli sínum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagðist Vigdís hins vegar ekki ætla að munnhöggvast við Pál og að hann væri góður maður sem ynni störf sín af alúð.

„En það er þessi árstími. Við skulum athuga að það er verið að sækja að okkur úr öllum áttum. En við látum ekki svona andlegt ofbeldi ná til okkar. Því það er náttúrlega verið að leggja á okkur gríðarlega pressu,“ sagði Vigdís í áðurnefndu sjónvarpsviðtali.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka