Veitingastaðir í sigti Anonymous

Veitingastaðir sem bjóða upp á hvalkjöt eru á meðal skotmarka …
Veitingastaðir sem bjóða upp á hvalkjöt eru á meðal skotmarka hakkara sem kenna sig við Anonymous. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hakkarahópurinn Anonymous hefur bætt vefsíðum íslenskra veitingastaða sem bjóða upp á hvalkjöt eins og Þriggja Frakka, Sægreifans og Fiskmarkaðarins á lista yfir skotmörk sín. Í yfirlýsingu vegna árása á vefsíður stjórnarráðsins segir að tilgangurinn sé að fræða fólk um hvalveiðar Íslendinga.

Listinn birtist á vefsíðunni Ghostbin en auk vefsíðna þriggja ráðuneyta sem ráðist var á um helgina eru vefsíður HB Granda og Reðursafnsins meðal annars listaðar sem skotmörk samtakanna. Nú hefur hins vegar nokkrum veitingastöðum verið bætt á listann.

Það eru Restaurant Reykjavík, Þrír Frakkar, Íslenski barinn, Sægreifinn, Grillmarkaðurinn, Tapasbarinn og Fiskmarkaðurinn.

Fjárfesti heldur í hvalaskoðun

Í yfirlýsingu sem birtist sömuleiðis á Ghostbin eru sögusagnir um að hakkarar hafi tekið niður netsamband Íslands kveðnar í kútinn. Þar kemur meðal annars fram að áður en ráðist var á íslenskar vefsíður hafi hakkararnir tekið með í reikninginn að Íslendingar hafi verið einarðir stuðningsmenn friðhelgi einkalífsins og verið andsnúnir eftirliti á sama tíma og flestar aðrar þjóðir hafi hallast í hina áttina.

Í stuttu máli segja þeir að ástæður árásanna séu þær að Íslendingar brjóti alþjóðalög um hvalveiðar og stuðli að því að ákveðnar hvaltegundir séu á barmi aldauða. Innan við 10% landsmanna borði hvalkjöt og meirihluti þess sé fluttur til Japans. Veiðarnar séu aðeins í fjárhagslegum tilgangi.

„Sannleikurinn er sá að þeir gætu auðveldlega fundið aðrar tekjuöflunarleiðir með því að fjárfesta í hvalaskoðunarferðamennsku án þess að útrýma hvölum grimmdarlega,“ segir í yfirlýsingunni.

Tilgangurinn sé ekki að afla hökkurunum frægðar eða dýrðar heldur að fræða fólk um hvað sé á seyði og til að stuðla að breytingum svo forða megi hvölum frá aldauða.

Fyrri fréttir mbl.is:

Listi yfir íslensku skotmörkin

Anonymous ræðst á stjórnarráðið

Hatrammari árás en áður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka