mbl.is fylgist grannt með óveðrinu sem nú gengur yfir landið og greinir frá í máli og myndum. Blint hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í morgun vegna skafrennings og er von á mikilli snjókomu um hádegi. Mörg hundruð börn héldu ekki til skóla í morgun.
Björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í viðbragðsstöðu frá kl. 6.30 í morgun vegna óveðurs sem spáð er á landinu í dag.
Ítrekað var varað við veðrinu í gær og staðfesti veðurfræðingur í samtali við mbl.is um sexleytið í morgun að spáin stæði óbreytt. Veðrið nær hámarki um hádegi með mikilli snjókomu.
Hafist var handa við að ryðja götur í Reykjavík um kl. 5 í morgun og er áhersla lögð á að halda aðalleiðum opnum. Gera má ráð fyrir að færð spillist í húsagötum þegar líður á daginn.
Björgunarfélag Vestmannaeyja var kallað út á sjöunda tímanum í morgun vegna ófærðar í bænum. Nokkrir bílar voru fastir á Helgafellsbraut og var færð farin að þyngjast í úthverfum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beindi því til fólks um sjöleytið í morgun að vera komið á áfangastað fyrir kl. 8 ef það ætlaði á annað borð af stað í morgunsárið. Aðgerðastjórn vegna yfirvofandi veðurofsa var virkjuð í Skógarhlíð um áttaleytið.
Þegar leið á morguninn varð röskun á innanlandsflugi, bæði hjá Flugfélagi Íslands og flugfélaginu Erni og verður athugað með næstu ferðir þegar líður að hádegi. Þeir fáu bátar sem ekki eru í landi verða líklega komnir í var fyrir hádegi.
Á níunda tímanum varð ljóst að margir nemendur grunnskóla höfuðborgarsvæðisins héldu kyrru fyrir í morgun en beðið var um leyfi fyrir mörg hundruð nemendur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því á Facebook að eitthvað hefði borið á því að foreldrar hefðu haft samband við börn sín sem komin voru í skólann og gefið þeim leyfi til að halda heim þar sem veður væri að versna. Mælist lögregla til þess að börn haldi kyrru fyrir í skólanum.
Heimaþjónusta fellur að mestu niður í Kópavogi í dag, viðburði Öryrkjabandalags Íslands við Stjórnarráðið fyrir hádegi í dag var frestað og þá munu eldri borgarar í Reykjavík og nágrenni ekki hittast og tefla vegna veðurs. Þá munu bílar á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra aðeins sinna farþegum sem þurfa að komast heim í dag og verða þeir ekki sóttir í heimahús.
Samkvæmt upplýsingum á vef Strætó ekur leið 6 ekki upp í Víkur og Borgarhverfi í Grafarvogi vegna ófærðar. Halldór Ólafsson, rekstrarstjóri hjá Reykjavíkurborg, segir að sér sé ekki kunnugt um að ófært sé í Grafarvogi en unnið er að mokstri á umræddu svæði. Öllum ferðum leiða 55 og 57 hefur verið aflýst þar til veðrið gengur niður.
Um hálfellefu greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að færð væri farin að spillast í borginni og beiðnir um aðstoð vegna fastra bíla í úthverfunum væru farnar að berast.