Horft til framtíðar í Straumsvík

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samál.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samál. Mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir ekkert benda til annars en að menn séu að horfa til framtíðar í álverinu í Straumsvík.

„Þau eru nýbúin með sextíu milljarða fjárfestingarverkefni. Í því fólst að auka bæði framleiðslu og fara yfir í virðismeiri og flóknari afurðir. Það bendir ekkert til annars en að menn séu að horfa til framtíðar í Straumsvík,“ segir Pétur en Samál eru Samtök álframleiðenda.

Fjárfestingarverkefnið sem um ræðir er það stærsta á Íslandi frá hruni. Það hófst árið 2010 og lauk á síðasta ári. „Þetta sýnir að menn hafa metnað fyrir þessum rekstri.“

Verkfallinu í álverinu var aflýst seint í gærkvöldi. Hefði því ekki verið aflýst hefði lokun á 480 kerum þess hafist í dag. Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna álversins, hefur gefið í skyn að kjaradeilan hafi hugsanlega verið notuð sem átylla til að loka álverinu fyrir fullt og allt.

Offramleiðsla í Kína lækkar álverð

Álverð hefur farið lækkandi á heimsvísu á síðustu mánuðum. Frá áramótum hefur það lækkað um tæp 30 prósent. Að sögn Péturs eru orsakirnar fyrir því fyrst og fremst offramleiðsla í Kína og vaxandi útflutningur þaðan sem hafi hægt á efnahagsvextinum. „Á móti hafa Kínverjar ekki dregið úr framleiðslu og fyrir vikið hefur myndast þrýstingur á útflutning. Það sem er jákvætt er að það er ört vaxandi eftirspurn í heiminum eftir áli,“ segir Pétur.

Ástæðan fyrir því er að ál er notað í æ ríkari mæli í samgöngutæki, ekki síst bifreiðar. Þar er verið að mæta kröfu stjórnvalda, ekki síst á Vesturlöndum, um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að létta bílaflotann.

Óviðunandi arðsemi 

Álverið í Straumsvík skilaði um 400 milljóna hagnaði fyrir skatta á síðasta ári, sem er 0,3% arðsemi eigin fjár. Fram hefur komið að það sé óviðunandi arðsemi að mati Rio Tinto á Íslandi. Á síðustu árum hafi því verið ráðist í aðhaldsaðgerðir og starfsmönnum í Straumsvík m.a. fækkað um í kringum 100 manns.

 „Þegar harðnar á dalnum og álverð lækkar er óhjákvæmilegt að það hafi áhrif á rekstur álvera víða um heim,“ segir Pétur. „Álverð hefur lækkað um 30 prósent frá áramótum. Slík lækkun hefur auðvitað áhrif og dæmi eru um að óhagkvæmum rekstrareiningum sé lokað. Auðvitað skiptir samkeppnishæfnin máli."

Vilja hnattrænar aðgerðir

Frá árinu 2007 hefur álframleiðsla innan ríkja Evrópusambandsins dregist saman um þriðjung.  „Það hefur fyrst og fremst gerst vegna þess kostnaðar sem regluverk ESB leggur á framleiðsluna, en engin leið er að velta honum út í verðið sem ræðst á heimsmarkaði, segir Pétur.

„Kostnaðarmatsgreining sem framkvæmdastjórn ESB lét gera fyrir rúmu ári sýnir að 11 prósent leggjast á framleiðslukostnað áls í ESB-ríkjunum vegna orkuskatta og losunargjalda. Fyrir vikið hrekst áliðnaður frá ríkjum þar sem álframleiðsla er umhverfisvænst yfir til Kína og Mið-Austurlanda þar sem losun er margfalt meiri. Þess vegna hafa evrópskir álframleiðendur lagt áherslu á að gripið verði til aðgerða á hnattræna vísu til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda  og kerfi losunarheimilda verði samræmd milli ríkja og heimsálfa, þannig að aðgerðirnar skili tilætluðum árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka