Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslunum, einnig á höfuðborgarsvæðinu. Krýsuvíkurvegur er ófær. Þá er ófærð víða á Austurlandi einkum á fjallvegum. Vindhraði norðaustan- og austanlands hefur verið á hægri niðurleið í kvöld og í nótt lægir svo um munar á þessum slóðum.
Veðurhorfur næsta sólarhring:
Vestan 15-23 m/s á NA- og A-landi og snjókoma eða skafrenningur. Annars staðar mun hægari vindur og él. Lægir talsvert eystra í kvöld og nótt. Sunnan 3-10 og víða él á morgun, en bjartviðri NA-lands. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.
Færð á vegum
Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslunum. Á Suðurlandi er víðast hálka en sumstaðar þæfingur, einkum á sveitavegum. Hálka er á Höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut og á Suðurnesjum. Krýsuvíkurvegur er ófær.
Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Ófært er yfir Heydal, á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og eins er ófært norður í Árneshrepp.
Það er snjóþekja og hálka á vegum í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Talsvert hefur snjóað á Tröllaskaga og þar fyrir austan. Slæmt ferðaveður er með norðausturströndinni og vegir á víða ófærir.
Ófærð er víða á Austurlandi einkum á fjallvegum en vegurinn um Fagradal er þó fær og eins er búið að opna veginn yfir Oddskarð.
Hálka eða hálkublettir eru á Suðausturlandi.