Lögreglubíll þveraði veginn

Við Reynisfjall kl. 14.25 í dag, föstudag.
Við Reynisfjall kl. 14.25 í dag, föstudag. Úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.

Ef veður versnar mikið meira á svæðinu í kringum Vík í Mýrdal er ekki víst að hægt verði að koma fólki til bjargar. Þegar er mjög blint á svæðinu og mikill vindur og brýnir lögregla fyrir fólki að halda sig heima. Þjóðvegurinn um Suðurland er lokaður frá Markarfljóti að Kvískerjum og hafa vindhviður við Reynisfjall farið hátt í 40 m/sek.

Búist er við stormi (meðalvindi yfir 20 m/s) á landinu síðdegis í dag og mestallan morgundaginn. Búist er við ofsaveðri (meðalvindi yfir 28 m/s) við Öræfajökul, Mýrdalsjökul og undir Eyjafjöllum milli kl. 15 og 20 í dag.

Að sögn Guðmundar Inga Ingasonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi sem staddur er í Vík í Mýrdal, var orðið þungfært í kringum Múlakvísl um eittleytið. Mögulega verður gripið til innri lokunar á milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur í Mýrdal svo fólk sé ekki að þvælast þar á milli í ofsaveðrinu.

Mjög blint er í Vík í Mýrdal. Einhverjir voru á ferli þegar lögregla ók um svæðið fyrir stuttu og snerist lögreglubíll meðal annars þversum á veginum í skafli. „Það er svo blint að það sést ekki neitt, það er ekkert ferðaveður,“ segir Guðmundur Ingi. „Ef þetta versnar, þá er ekki víst að hægt sé að koma fólki til bjargar.“

Gæta þess að ekki blási inn í útihúsin

Farið er að bæta í vind á Hvolsvelli. Ekki er mikil umferð um bæinn og hefur enginn bílstjóri lent í vandræðum nú eftir hádegi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Björgunarsveit mun sjá um að aðstoða fólk og loka þjóðveginum.

 „Þetta er að byrja en það er ekki neitt ofsaveður ennþá,“ segir Jónas Erlendsson, fréttaritari mbl.is og Morgunblaðsis í Fagradal í Mýrdal. Sem stendur er rok og skafrenningur en á hann von á að með deginum dragi úr skafrenningi samhliða snjókomunni.

Íbúar á svæðinu hafa undirbúið sig í gær og í dag. Gengið hefur verið frá lausum munum, þ.e. ýmsu í tengslum við búskap og útihús könnuð til að koma í veg fyrir að ekki blási inn í þau. 

Upplýsingar frá Vegagerðinni: 

Vaxandi vindur og versnandi veður almennt á landinu upp úr kl. 14. Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal verður ofsaveður frá kl. 14 til 18 og hviður allt að 40-50 m/s. Eins í Öræfum frá kl. 14 til 20 og hviður um og yfir 50 m/s á þeim slóðum.

Stórhríðarveður austanlands með kvöldinu. Skafrenningur um allt norðanvert landið og eins ofanhríð. Höfuðborgarsvæðið og suðvestanvert landið virðist ætla að sleppa betur, en samt allhvasst síðdegis og í kvöld og víðast skefur lausamjöllina. Eins ofankoma um tíma, en minniháttar þó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert