Björgunarsveitir að störfum

Ekkert ferðaveður er á Vesturlandsvegi í Grafarholti og Grafarvogi, þar er mikill snjór og margir bílar sitja fastir, þar á meðal strætisvagnar og vörubíll. Verst er ástandið á Víkurvegi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Meðfylgjandi myndskeið sýnir aðstæður við Korpúlfsstaði í morgun.

Björgunarsveitir vinna að því að aðstoða fólk úr bílum sínum. Engin leið er að ná bílunum, hreinlega þarf að grafa frá þeim til að ná fólkinu. Einnig hefur verið tilkynnt um fok á bárujárnsplötum og fleiru á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

Björgunarsveitir voru víða að störfum í gærkvöldi vegna veðursins; og voru sveitir frá Skagaströnd, Eyjafirði, Siglufirði, Grundarfirði, Hveragerði, Grímsnesi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Akureyri, Varmahlíð og Akranesi kallaðar út. Í  flestum tilvikum var um fasta bíla að ræða, einn eða fleiri, en einnig bárust tilkynningar um fok og heilbrigðisstarfsfólk var ferjað til vinnu og lokunarpóstar á vegum mannaðir.

Björgunarsveitir á Suðurlandi, þar sem veður var hvað verst í gær, voru að störfum fram að miðnætti en þá var veðrið að mestu gengið niður.

Björgunarsveitir hafa verið á ferðinni um land allt.
Björgunarsveitir hafa verið á ferðinni um land allt. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert