Lognið á undan stórum stormi

Stormurinn hefur fært sig austar.
Stormurinn hefur fært sig austar. Rax / Ragnar Axelsson

Óveðrið er gengið yfir á höfuðborgarsvæðinu og búast má við fallegu jólaveðri á morgun. Það er hins vegar einungis lognið á undan storminum sem mætir tvíefldur á mánudag.

Þá er búist við tuttugu til tuttugu og fimm metrum á sekúndu víða um land ásamt slyddu eða snjókomu.

Búið er að opna aftur vegina á Kjalanesi, Mos­fells­heiði, Þrengslum og Sandskeiði en hálka og skafrenningur er á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu er leiðin þó fær vel búnum bílum. Hellisheiðin er ennþá lokuð.

Lægðin hefur fært sig austar og búast má við miklu hvassviðri, ofankomu og skafrenningi á Austurlandi fram í fyrramálið. Þá verður snjókoma fram á nótt á Norðurlandi og á Vestfjörðum verður snjókoma með köflum. Slydda er á Egilsstöðum en hún mun breytast í snjókomu þegar líður á daginn.

Mikil snjóflóðahætta er á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga auk þess sem töluverð hætta Austfjörðum. 

Álag á björgunarsveitum

Töluvert álag var á björg­un­ar­sveit­um á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan í morgun. Fyrir austan þurftu sveitir að koma heilbrigðisstarfsfólki til vinnu og koma fólki úr bílum sem sátu fastir. Nokkuð staðbundið óveður var í Grafarvogi og Grafarholti í morgun þar sem björgunarsveitir þurftu meðal annars að aðstoða fólk við að komast úr bílum sem sátu fastir.

Hægt er að fylgj­ast bet­ur með veður­horf­um á veður­vef mbl.is.

Vindaspáin fyrir mánudag. Búist er við tuttugu til tuttugu og …
Vindaspáin fyrir mánudag. Búist er við tuttugu til tuttugu og fimm metrum á sekúndu víða um land. Skjáskot af vef Veðurstofunnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert