Það er harla ólíklegt að það hafi farið fram hjá mörgum að Veðurstofa Íslands hefur spáð ofsaveðri eða fárviðri á landinu seint á morgun, mánudag, og annað kvöld, mánudagskvöld. Veðurfræðingar og talsmenn björgunarsveita hafa nefnt veður sem gekk hér yfir í byrjun febrúar 1991 til samanburðar. En hvernig var það?
Við skulum rifja upp frétt Morgunblaðsins frá 5. febrúar 1991, sem bar yfirskriftina: „Mannskaðalaust fárviðri reið yfir“.
„Engin alvarleg slys urðu á fólki, en gífurlegt eignatjón varð um sunnan-, vestan- og norðanvert land á sunnudag í einhverju mesta fárviðri sem gengið hefur yfir í manna minnum. Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi telja að eignatjón á landinu gæti numið á annan milljarð króna, en skýrsla Almannavarna verður rædd á ríkisstjórnarfundi í dag.
Nokkur hús til sjávar og sveita eyðilögðust og mjög mörg skemmdust meira eða minna. Þakplötur og annað lauslegt fauk eins og skæðadrífa um allt og tré rifnuðu víða upp með rótum. Lögreglu- og slökkviliðsmenn, björgunarsveitir og aðrir sjálfboðaliðar lögðu sig víða í mikla hættu við að bjarga verðmætum. Veðrið skall á á sunnanverðu landinu á tíunda tímanum og fór norðureftir. Tíu mínútna meðalvindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist 110 hnútar og hefur Veðurstofan aldrei mælt meiri vindhraða hér á landi.
Á flestum þéttbýlisstöðum og nær öllum sveitabæjum á óveðurssvæðinu urðu einhverjar skemmdir. Víða horfði fólk til sveita á útihús takast á loft og jafnvel springa í tætlur undan veðurofsanum. Sauðfé drapst þegar það lenti undir húsarústum. Gróðurhús eyðilögðust víða á Suður- og Vesturlandi. Flugvélar og bátar eyðilögðust, eða urðu fyrir skemmdum, fjórir byggingarkranar og tugir bíla eyðilögðust og hundruð bíla skemmdust. Í Reykjavík hafa orðið mestu gróðurskemmdir sem sögur fara af.
Lauslegt mat í gærkvöldi benti til þess að allt að þriðjungur þeirra einstaklinga, sem vurðu fyrir tjóni af völdum fárviðrisins, hefði verið ótryggður.“
Hér má sjá myndir Ríkissjónvarpsins frá þessum degi sem birtar voru í innlendum fréttaannál ársins 1991. (Umfjöllunin hefst á fjórðu mínútu myndskeiðisins).
Í myndskeiðinu má m.a. sjá fréttamann standa í miðju fárviðri við höfnina í Keflavík og hann segir: „Málið er einfalt, hér er snarvitlaust veður!“