Vill „mini-mall“ í Tollhúsið

Tollhúsið í Hafnarstræti. Lagt er til að heimilt verði að …
Tollhúsið í Hafnarstræti. Lagt er til að heimilt verði að selja það og finna annað hentugra húsnæði undir starfsemina. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Í breytingartillögum með fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að heimilt verði að selja Tollhúsið við Tryggvagötu og Þjóðskjalasafnið við Laugaveg. Finna ætti hentugra húsnæði utan miðbæjar til þess að kaupa eða leigja.

Fasteignamat Tollhússins hljóðar upp á tæplega 1,8 milljarða króna samkvæmt Þjóðskrá Íslands og húsnæði Þjóðskjalasafnsins er metið á tæpan milljarð. 

Fjárlagafrumvarpið með breytingartillögum og nefndaráliti meirihlutans var afgreitt úr fjárlaganefnd í gær.

Illa farið með svæðið

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir tvær meginástæður búa þarna að baki. Í fyrsta lagi gæti ríkið hagnast á því að selja fasteignirnar og kaupa aðrar hagstæðari í staðinn og í öðru lagi telur hann að miðborgin myndi njóta góðs af því að nýta þessa bletti fyrir verslun, þjónustu eða íbúabyggð.

Þjóðskjalasafnið og Tollhúsið eru miðsvæðis og það er mjög illa farið með þessi svæði þar sem starfsemin er ekki miðborgarsækin,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilja ganga frekar en að fara í rútur

Hann bendir á að miðborgin hafi stækkað vegna aukins fjölda ferðamanna og telur skynsamlegt að nýta þessi svæði til þess að styrkja hana enn frekar. „Það er í rauninni óþægilegt fyrir viðskiptavini tollsins að þurfa að fara niður í bæ að sækja þjónustuna þangað. En hins vegar er húsið frábærlega staðsett og gæti nýst vel undir mjög margt,“ segir hann.

Guðlaugur sér til dæmis fyrir sér svokallað „mini-mall“, eða litla verslunarmiðstöð, í Tollhúsinu. „Mér finnst við ekki vera að nýta þau sóknarfæri sem við ættum að hafa vegna aukins fjölda ferðamana varðandi verslun,“ segir hann og bendir á að verið sé að ferja ferðamenn í Kringluna, Smáralind og Holtagarða með rútum.

„Þeir vilja hins vegar vera í miðbænum og myndu örugglega frekar vilja ganga í verslun en að fara í rútum þangað.“

Hægt að auglýsa eftir góðum boðum

Aðspurður segist Guðlaugur almennt hafa fengið jákvæð viðbrögð við þessum tillögum.

Hann segir starfsemi Tollhússins og Þjóðskjalasafnsins í rauninni geta verið hvar sem er. „Mér sýnist nægilega mikið framboð vera af húsnæði í öðrum hverfum borgarinnar og það myndu örugglega koma góð tilboð ef auglýst yrði eftir þeim.“

Lagt er til að heimilt verði að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins.
Lagt er til að heimilt verði að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert