Allt verður gert til þess að halda áætlun í millilandaflugi Icelandair og Wow Air í dag. Flugfélögin biðja farþega að fylgjast vel með og fólk er hvatt til þess að fara tímanlega út á flugvöll.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að stefnt sé að því að halda áætlun í dag og að allar flugvélar sem áttu að fara í morgun séu farnar. Nýjar spár hermi að veðrið fari ekki að versna fyrr en eftir klukkan fimm síðdegis en þotur Icelandair í Evrópuflugi séu væntanlegar til Keflavíkur á milli 15 og 16. Síðdegisflug til Norður-Ameríku og Lundúna eigi að fara á milli 16:30 og 17:10 og stefnt sé að því að halda þeirri áætlun.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow Air, segir að þær flugvélar sem áttu að fara í morgun séu farnar og allt bendi til þess að hægt verði að lenda þeim á áætlun um miðjan dag. Tvær vélar fari til Bandaríkjanna og ein til Lundúna síðdegis og stefnt sé að því að halda þeirri áætlun. Ef breyting verður á verður haft samband við alla farþega sem eiga bókað flug í dag með Wow Air.
Bætt við klukkan 10:50
Flug WW815 frá London sem fljúga átti frá Gawick flugvelli kl. 19:40 í kvöld, er frestað til kl. 07:00 á morgun 8. desember vegna aftakaveðurs sem Veðurstofa Íslands spáir. Gert er ráð fyrir að vélin lendi í Keflavík kl. 10:10 (8. des)